Nauðgari framseldur til Bretlands

Joseph Tsang
Joseph Tsang Skjáskot af Twitter

Dæmdur kynferðisbrotamaður og fyrrverandi keppnismaður í skautahlaupi hefur samþykkt að snúa aftur til Bretlands eftir að hafa verið handtekinn í Hong Kong á flótta undan réttvísinni í Bretlandi.

Joseph Tsang var í ágúst dæmdur fyrir tvær nauðganir og tvö önnur kynferðisofbeldisverk var handtekinn í Hong Kong í september og hefur verið í haldi síðan.

Lögmaður Tsang í Hong Kong segir að skjólstæðingur sinni hafi samþykkt að fara til Bretlands og verður fluttur þangað innan þriggja mánaða en yfirvöld í Hong Kong hafa þrýst á að hann verði framseldur til Bretlands þar sem fangelsisvist bíður hans. Áður hafði Tsang sagt að hann myndi berjast á móti framsalinu með kjafti og klóm.

Tsang  var dæmdur í Bretlandi í ágúst en hann var ekki viðstaddur dómsuppkvaðninguna þar sem hann hafði rofið ökklaband sem notað var til að fylgjast með ferðum hans og flúið.

Auk kynferðislegs ofbeldis var hann einnig dæmdur sekur fyrir að taka ósæmilegar myndir af börnum yngri en sextán ára og kynmök með ólögráða. 

Stúlkurnar sem hann var dæmdur fyrir að nauðga voru fimmtán og sextán ára þegar brotin voru framin. Hann fékk fimmtán ára fangelsisdóm fyrir ofbeldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert