Obama: Mega verja lofthelgi sína

Forsetarnir héldu blaðamannafund í Hvíta húsinu.
Forsetarnir héldu blaðamannafund í Hvíta húsinu. AFP

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, segir Tyrki hafa fullan rétt til að verja lofthelgi sína, en ummælin lét hann falla vegna árás tyrkneskrar herþotu á rússneska herþotu fyrr í dag.

„Tyrkland, líkt og hvert annað ríki, á rétt til að verja landsvæði sitt og lofthelgi,“ hefur fréttaveita AFP eftir Bandaríkjaforseta, en hann átti fund með Francois Hollande, forseta Frakklands, í Hvíta húsinu í dag.    

Forsetarnir vöruðu báðir við frekari stigmögnun í þeirri deilu sem nú er uppi vegna atviksins.

Recep Tayyip Er­dog­an, for­seti Tyrk­lands, kallaði til neyðarfundar með yf­ir­mönn­um hers­ins, leyniþjón­ust­unn­i, for­sæt­is­ráðherr­an­um Dav­u­toglu auk fleiri ráðherr­um eftir að rússnesku orrustuþotunni var grandað.

Eftir fundinn lét Erdogan hafa eftir sér að mikilvægt sé að réttur Tyrklands til að verja landamæri sín sé virtur. „Allir verða að virða rétt Tyrklands til þess að verja landamæri sín,“ hefur AFP eftir forsetanum.

Franskir hermenn ekki til Sýrlands

Hollande Frakklandsforseti sagði á blaðamannafundi í Hvíta húsinu að ekki stæði til að senda franska hermenn inn fyrir landamæri Sýrlands. „Frakkland mun ekki skerast í leikinn með hervaldi á jörðu niðri.“

Rússneskur hermaður sagður látinn

Orrustuþotan sem skotin var niður af tyrkneska hernum við landamæri Sýrlands fyrr í dag er af gerðinni Su-24. Flugmenn vélarinnar eru sagðir hafa skotið sér út úr henni áður en vélin brotlenti. Óljósar fregnir berast um afdrif þeirra, en annar þeirra er sagður hafa verið skotinn til bana í fallhlíf sinni.

Fréttaveita AFP greinir nú frá því að rússneskur hermaður hafi týnt lífi við leit að flugmönnunum tveimur. Nánari upplýsingar liggja ekki fyrir að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert