Framkvæmdir ógna bleika höfrungnum

Bleikir höfrungar sem hafa verið algeng sjón úti fyrir ströndum Hong Kong í Kína gætu átt á hættu að hverfa þaðan vegna fjölda framkvæmda sem ógna vistkerfi þeirra. Meðal annars telja sérfræðingar að brú sem byggja á milli borganna Hong Kong og Macau og stækkun flugvallar borgarinnar gæti verið síðasta hálmstráið þannig að höfrungarnir hverfi á braut.

Bleiku höfrungarnir eru vinsælir meðal ferðamanna en ekki síður heimamanna. Þannig var höfrungurinn tákn borgarinnar þegar Bretland skilaði Hong Kong til Kína árið 1997.

Aðeins eru 60 slíkir höfrungar eftir fyrir utan Hong Kong og hefur þeim fækkað frá 158 árið 2003. Samuel Hung, formaður verndarsjóðs höfrunganna, segir að fækkun þeirra geti stafað af ofveiði, mengun, en aðalástæðan séu auknar ferjusiglingar í sjónum við Hong Kong. Segir hann að höfrungarnir hafi mögulega drepist, eða þá fært sig til annarra staða, en bleiku höfrungarnir lifa víða í Suður-Kínahafi.

Þrátt fyrir að höfrungunum hafi fækkað mikið við Hong Kong eru þeir þó ekki á lista yfir dýr í útrýmingarhættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert