Fordæma frestun dómsuppkvaðningar

Hluti aðskilnaðarveggs Ísraels.
Hluti aðskilnaðarveggs Ísraels. AFP

Dómstóll í Jerúsalem hefur sakfellt tvo Ísraelsmenn fyrir að brenna palestínskan táning lifandi. Það var niðurstaða dómara að fresta dómsuppkvaðningu yfir meintum höfuðpaur þar til hann hefur gengist undir geðrænt mat. Ákvörðunin hefur verið gagnrýnd af fjölskyldu fórnarlambsins og Hamas.

Ísraelsmennirnir sem voru dæmdir sekir voru undir lögaldri þegar þeir voru ákærðir fyrir að nema á brott og myrða Mohammed Abu Khdeir, 16 ára. Þriðji sakborningurinn, sem er 31 árs, hefur í raun verið fundinn sekur en formlegum úrskurði í máli hans var frestað eftir að lögmaður hans lagði fram gögn þess efnis að hann væri ekki ábyrgur gjörða sinna vegna andlegrar vanheilsu.

Faðir Abu Khdeir hefur gagnrýnt frestunina og kallað eftir því að hús sakborninganna verði eyðilögð, líkt og Ísrael gerir vegna palestínskra árásarmanna.

„Dómstóllinn hegðar sér með einum hætti gagnvart aröbum og með öðrum hætti gagnvart gyðingum,“ sagði Hussain Abu Khdeir við blaðamenn eftir dómsuppkvaðninguna.

Refsing í málunum verður ákveðin í janúar.

Abu Khdeir var numinn á brott og myrtur fáum vikum eftir að þrír ísraelskir táningar voru myrtir á Vesturbakkanum. Atvikin voru þáttur í ofbeldisöldu sem leiddi til 50 daga stríðsástands á Gaza. Fleiri en 2.200 létust í átökunum.

Rannsóknir á líki Abu Khdeir leiddu í ljós að reykur hafði borist í lungu drengsins, sem þótti benda til þess að hann hefði verið brenndur lifandi. Hann fannst í skógi í vesturhluta borgarinnar nokkrum klukkustundum eftir að honum var rænt.

Hamas hafa fordæmt frestun dómsuppkvaðningu í máli hins 31 árs Ben-David og segja hana til marks um kynþáttafordóma „hernámsríkisins“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert