Pútín: Skutu vélina niður vegna olíu

Vladimír Pútín Rússlandsforseti er ómyrkur í máli.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti er ómyrkur í máli. AFP

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, heldur því fram að ástæða þess að tyrkneski herinn skaut niður rússneska herflugvél í síðustu viku sé sú að þeir hafi verið að verja olíuviðskipti. Pútín segir að olía sem sé framleidd á svæði sem er undir stjórn Ríkis íslams sé flutt til Tyrklands.

„Við höfum ástæðu til að ætla að ákvörðunin um að skjóta niður vélina okkar hafi stjórnast af þeirri löngun að verja olíuleiðslur sem liggja til Tyrklands, skammt frá hafnarsvæðum þar sem olíu er umskipað um borð í olíuflutningaskip,“ sagði Pútín á blaðamannafundi í dag. Pútín er nú staddur í París þar sem loftlagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna fer nú fram. 

„Við höfum fengið nýjar upplýsingar sem staðfesta því miður að olían, sem er framleidd á svæðum sem eru undir stjórn Ríkis íslams og annarra hryðjuverkahópa, hafi verið flutt í gríðarlega miklu magni til Tyrklands,“ bætti forsetinn við. 

Herflugvélin, sem er sprengjuflugvél af gerðinni Su-24, var skotin niður við landamæri Sýrlands að Tyrklandi í síðustu viku. Pútín sakaði strax Tyrki um að vera í slagtogi með hryðjuverkamönnum og sagði að olía frá Ríki íslams væri flutt í gegnum Tyrki. 

Olíusala er sögð vera helsta tekjulind samtakanna, sem stjórna stórum svæðum í Sýrlandi og í Írak. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert