Drónar hættulegri flugi en fuglar

Dróni við Höfða.
Dróni við Höfða. Eagles

Bandarískt fyrirtæki í fluggeiranum segir almannaflugi standa meiri ógn af drónum en fuglum. Árekstur við dróna geti haft miklu alvarlegri afleiðingar í för með sér en árekstur við fugl.

Í rannsókn fyrirtækisins Aero Kinetics segir að flugmenn þyrilvængja séu í mestri lífshættu og hættara við að bíða bana í árekstri við dróna en flugmönnum annarra loftfara.

Vísað er til þess að drónar eru samsettir úr koltrefjum, rafhlöðum málmi og öðru ólífrænu efni sem hefur miklu meiri skriðþunga á ferð en fugl. Því væru drónar mun hættulegri en fuglar.

Aero Kinetics leggur til að settar verði ákveðnar reglur um flug dróna en til stendur af hálfu bandaríska loftferðaeftirlitsins að þeir verði skráningarskyldir.

Árið 2013 skullu fuglar 444 sinnum á flugvélar á flugi í bandaríska loftrýminu svo að tjón hlaust af. Heildarkostnaður vegna viðgerða var um 951 milljón dollarar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert