Límdi kjaft hunds saman með límbandi

Hér má sjá myndina sem Lemansky birti á Facebook.
Hér má sjá myndina sem Lemansky birti á Facebook. Skjáskot

Kona sem varð harðlega gagnrýnd á samfélagsmiðlum eftir að hún birti mynd á Facebook þar sem mátti sjá hund hennar með saman bundna skoltana með límbandi, hefur nú verið ákærð fyrir grimmd gegn dýri.

Katharine Lemansky, frá borginni Cary í North Carolina ríki Bandaríkjanna birti myndina á föstudaginn. Fyrir neðan hana stóð „Þetta er það sem gerist þegar þú þegir ekki!“ (e. „This is what happens when you don't shut up!!!“)

Lemansky tók myndina út af Facebook en þá höfðu hundruð þúsunda deilt myndinni og lýst yfir hneykslan sinni og áhyggjum af velferð hundsins, sem er brúnn Labradorhundur, kallaður Brown.

Daginn eftir tjáði hún sig á Facebook og sagði límbandið hafa aðeins verið utan um skolta  hundsins í nokkrar mínútur. Hann hefði þó hætt að gelta eftir það og sagði Lemansky það sýna að aðferðin hefði virkað. 

Lögregla í Cary fann Lemansky í gær, eftir að hafa leitað hennar í þremur ríkjum. Hún játaði sök og verður ákærð fyrir grimmd gegn dýri.

Lögreglustjórinn Randall Rhyne sagði í tilkynningu það hafa verið hræðileg ákvörðun hjá Lemansky að líma kjaft Brown saman og að það eina í stöðunni væri að ákæra hana fyrir dýraníð.

Hann bætti þó við að Brown hefði ekki meiðst vegna límbandsins.

Lemansky kemur fram fyrir dómara 14. desember. Hún gæti þurft að sitja í fangelsi í 150 daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert