Löglegt að krefja hjón um að hafa sama eftirnafn

Samkvæmt gömlum lagaákvæðum mega konur ekki gifta sig í sex …
Samkvæmt gömlum lagaákvæðum mega konur ekki gifta sig í sex mánuði eftir skilnað og verða að taka upp eftirnafn eiginmanns síns. AFP

Jafnréttissinnar í Japan áttu misjöfnu gengi að fagna fyrir dómstólum í dag. Hæstiréttur landsins hefur nú kveðið upp úr um að það samrýmist stjórnarskrá að krefja hjón um að hafa sama eftirnafn. Hins vegar komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að það væri lögleysa að banna konum að gifta sig í hálft ár eftir skilnað.

Í japönskum lögum er ekki tekið fram hvort hjónanna eigi að taka upp eftirnafn hins. Í reynd hefur það hins vegar nánast alltaf verið konan sem tekur upp nafn eiginmanns síns. Sumum konum þykir það hins vegar ósanngjarnt og að þær tapi hluta af eigin einkennum. Sumar þeirra halda hins vegar áfram að nota upprunaleg eftirnöfn sín á vinnustaðnum og sum pör skrá einfaldlega ekki hjúskap sinn.

„Þetta hefur afleiðingar fyrir framtíðina sem þýða þjáningar fyrir þá sem ætla að gifta sig og þá sem enn eiga eftir að fæðast,“ sagði Kaori Okuni, einn stefnendanna, sem var vonsvikin með niðurstöðu hæstaréttar.

Í aðskildu máli komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að það samræmdist ekki stjórnarskrá að banna konum að gifta sig í sex mánuði eftir skilnað. Upprunalegur tilgangur laganna var að taka af tvímæli um faðerni barna. Hæstiréttur sagði að lögin væru úrelt vegna framþróunar í tækni, þar á meðal DNA-rannsóknum. Það væri of mikið að banna konum að gifta sig í meira en 100 daga.

Fyrri frétt mbl.is: Kvenfjandsamleg lög fyrir hæstarétt

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert