Hataði lyfjaforstjórinn handtekinn

Martin Shkreli í fylgd laganna varða.
Martin Shkreli í fylgd laganna varða. AFP

Martin Shkreli, fjárfestir og forstjóri lyfjafyrirtækis, sem varð heimsfrægur að endemum fyrir að snarhækka verð á lyfi eftir að hafa keypt framleiðsluréttinn, var handtekinn í gær, sakaður um að hafa rekið nokkurs konar Ponzi svindl síðustu ár.

Shkreli, sem er 32 ára, sást í eigin útsendingu á netinu í gærkvöld skella símanum á einhvern sem kynnti sig sem útsendara (e. special agent). Skömmu síðar kom fjölmennt lið lögreglumanna og handtók hann. Hann hefur sagt starfi sínu hjá Turing Pharmaceuticals lausu en starfar enn hjá fyrirtækinu KaloBios Pharmaceuticals. Hlutabréfaverð hins síðarnefnda féll um 53% áður en viðskipti með bréfin voru stöðvuð í kauphöllinni eftir að fréttirnar bárust út.

Robert Capers, saksóknari í Brooklyn, sagði á blaðamannafundi að Shkreli hefði rekið fyrirtæki sín eins og Ponzi svindl. Hvert fyrirtækið á fætur öðru hefði verið notað til þess að greiða fjárfestum í síðasta fyrirtæki. Aðferðir Shkreli voru sagðar sérstaklega ósvífnar en tilraunir hans til þess að fela slóð sína munu hafa leitt til þess að hann notaði eignir fyrirtækisins Retrophin, sem hann stjórnaði einnig, til þess að greiða skuldir vogunarsjóða sem hann stjórnaði.

Hann er ákærður fyrir verðbréfasvindl (securities fraud), samsæri um að fremja verðbréfasvindl og brot gegn lögum um peningamillifærslur (wire fraud). Shkreli og Evan Greebel, lögmaður sem hefur unnið með Shkreli, lýstu sig saklausa fyrir dómara. Þeir neita sök og segja það sem saksóknarar kalla svindl vera bókhaldsaðferðir sem saksóknarar skilja ekki.

Robert Capers, saksóknari, á blaðamannafundi eftir handtöku Shkreli.
Robert Capers, saksóknari, á blaðamannafundi eftir handtöku Shkreli. AFP

Falskar tilkynningar til fjárfesta

Kærurnar taka til meintra brota sem áttu sér stað þegar Shkreli stjórnaði sjóðstýringarfyrirtækinu MSMB Capital Management, sem lagði upp laupana árið 2012, og á meðan ferli hans stóð sem forstjóri hjá lyfjafyrirtækinu Retrophin milli 2012 og 2014.

MSMB mun hafa tapað gríðarlegum fjárhæðum árið 2011 og eftir það meina yfirvöld að Shkreli hafi, í samráði við Greebel, sent fjárfestum falskar afkomutölur sem sýndu mikinn hagnað bæði sjóðanna og fyrirtækisins Retrophin. Þannig hafi hann lokkað til MSMB fjárfestingar upp á þrjár og fimm milljónir dala í tveimur sjóðum.

Til þess að hylma yfir svikin munu þeir svo hafa dregið 11 milljónir dala frá Retrophin til þess að endurgreiða fjárfestum. Kærur saksóknara nú eru því nokkuð samhljóða máli sem Retrophin höfðaði gegn Shkreli sem sakaði hann um að hafa dregið sér fé frá fyrirtækinu til eigin nota og til þess að endurgreiða fjárfestum MSMB. Retrophin krefst 65 milljón dala í skaðabætur.

Reuters segir frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka