Dæmdir til dauða fyrir morð á bloggara

Borði með mynd af útgefanda sem var myrtur af íslamistum …
Borði með mynd af útgefanda sem var myrtur af íslamistum í Bangladess fyrr á þessu ári. AFP

Dómstóll í Bangladess dæmdi í dag tvo menn til dauða fyrir hrottalegt morð á veraldlegum bloggara árið 2013. Morðingjarnir réðust á manninn með sveðjum og reyndist það fyrsta árásin af mörgum á veraldlega þenkjandi bloggara og rithöfunda.

Mennirnir tveir sem voru dæmdir til dauða í dag eru námsmenn. Þriðji maðurinn var dæmdur til lífstíðarfangelsisvistar og fimm aðrir til vægari refsingar vegna morðsins á hinum 35 ára gamla Ahmed Rajib Haider. Annar námsmannanna er á flótta og var dæmdur að honum fjarstöddum.

Saksóknarinn í málinu segir að morðingjarnir hafi verið undir áhrifum eldklerksins Jashim Uddin Rahmani. Sá hlaut fimm ára fangelsi fyrir að stuðla að morðinu. Hann hafði predikað að það væri lögmætt að drepa trúlausa bloggara sem töluðu gegn íslam eins og Haider.

Fimm aðrir veraldlegir bloggarar og útgefandi hafa verið myrtir á hrottalegan hátt á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert