Selur peysu fyrrverandi hjásvæfu á netinu

Peysan sem hægt er að kaupa á Tradera
Peysan sem hægt er að kaupa á Tradera

Sænsk kona sem er búin að fá nóg af mönnum sem standa ekki við orð sín og fyrrverandi hjásvæfu ákvað að selja golftreyju hans á netinu. Birti hún auglýsinguna fyrr í vikunni og hefur auglýsingin vakið mikla athygli og hlátur hjá lesendum.

Á vefnum The Local kemur fram að kaldhæðin auglýsing Emilie Roslunds hafi birst á vefnum Tradera sem er sænskur vefur sem svipar til eBay.

„Ég er að selja Acne golftreyju sem fyrrverandi hjásvæfa gleymdi heima hjá mér fyrir nokkru síðan. Hún er í ágætu ásigkomulagi sem er meira en hægt er að segja um hann (elskhugann fyrrverandi),“ segir í auglýsingu Roslunds sem er 28 ára gömul.

„Peysan er væntanlega í stærð M og úr angóruull. Fyrrverandi elskhugi hefur reynt að nálgast hana í nokkur skipti en ég set hana í sölu á Tradera þar sem ég tel að peysan eignist betri eiganda með þessum hætti,“ segir enn fremur í færslunni á Tradera.

„Ef þú býrð í Stokkhólmi þá getur þú komið og sótt hana, það er ef þú kemur á þeim tíma sem þú lofar að koma á. Ég er búin að fá nóg af nágungum sem standa ekki við orð sín,“ segir enn fremur. Roslund hvetur þá sem hafa áhuga á að kaupa peysuna að hafa samband við hana með tölvupósti.

Í morgun var auglýsing Roslunds sú vinsælasta á Tradera vefnum og hafa fjölmargir skoðað auglýsinguna og skrifað færslu við hana.

Hæsta boðið sem er komið í golftreyjuna er 715 krónur, sem svarar til 11 þúsund íslenskra króna en ný peysa kostar 2495 sænskar krónur.

Færslan á Tradera

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert