Stefna andstæðingum fóstureyðinga

Skrifstofa Planned Parenthood í New York.
Skrifstofa Planned Parenthood í New York. AFP

Planned Parenthood, sem rekur heilsugæslustöðvar fyrir konur í Bandaríkjunum, ætlar að stefna hópi andstæðinga fóstureyðinga sem birti myndbandsupptökur sem hann notaði til að saka samtökin um ólögleg viðskipti með fósturvefi. Hópurinn hafi veitt rangar upplýsingar.

Íhaldssamir stjórnmálamenn hafa notað leynilegar upptökur sem útsendarar hópsins gerðu til að reyna að stöðva allar opinberar fjárveitingar til Planned Parenthood sem býður meðal annars upp á fóstureyðingar. Hópurinn segir myndböndin sýna forsvarsmenn Planned Parenthood semja um ólögleg viðskipti með vefi úr fóstrum sem hefur verið eytt. Gagnrýnt hefur verið að myndböndin hafi verið klippt til stofnunin líti illa út.

Fjöldi rannsókna á ásökununum í garð Planned Parenthood hafa farið fram og hafa engar vísbendingar fundist um misferli fulltrúa stofnunarinnar.

Í stefnu Planned Parenthood verður því haldið fram að fulltrúar Center for Medical Progress og Biomax, fyrirtækisins sem stendur að baki hópnum, hafi gefið upp rangar upplýsingar til að fá öðlast aðgang að ráðstefnum Planned Parenthood og læknum sem sé í andstöðu við alríkislög, að því er kemur fram í frétt Time.

Lögmaður Planned Parenthood segir að fulltrúar hópsins hafi ítrekað gerst sekir um glæpsamlegt athæfi eins og að falsa ökuskírteini, taka upp myndbönd á laun, samningsrof og að gefa upp rangar upplýsingar.

Ásakanir fóstureyðingaandstæðinganna virtust ofarlega í huga manns sem framdi skotárás í heilsugæslustöð Planned Parenthood í Colorado Springs í nóvember. Hann er sagður hafa vísað til meintrar sölu stofnunarinnar á líkamshlutum fóstra þegar hann var handtekinn.

Aðstoðarframkvæmdastjóri Planned Parenthood, Dawn Laguens, segir hópinn sem tók upp myndböndin á meðal öfgafyllstu andstæðinga fóstureyðinga í Bandaríkjunum. Myndböndin hafi leitt til fleiri hótana í garð lækna og annarra sem bjóða upp á fóstureyðinga. Tengir hún árásina í Colorado Springs við myndböndin.

„Þetta mál snýst um net öfgamanna sem eru andsnúnir fóstureyðingum og lögin sem þeir brutu til að dreifa lygum og skaða Planned Parenthood. Öll þessi rógherferð er svindl sem byggðist á ólöglegum athöfnum og lygavef,“ segir Laguens.

Frétt Time um málsóknina

Fyrri frétt mbl.is: „Ekki fleiri barnshlutar“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert