Mátti ekki nota piparúða á árásarmann

Sønderborg
Sønderborg Af Wikipedia

17 ára dönsk stúlka gæti verið ákærð af lögreglu eftir að hún notaði piparúða til að verjast árásarmanni í Sønderborg á dögunum. Enskumælandi maður réðst á stúlkuna, neyddi hana niður á jörðina og reyndi að af­klæða hana. Hún komst undan með því að nota á hann piparúða, sem almennum borgurum er óheimilt að eiga í Danmörku. Gæti hún fengið sekt upp á 500 danskar krónur eða jafngildi, 11.000 króna.  

Talsmaður lögreglunnar í Sønderborg sagði að í ljósi þess að ólöglegt sé að eiga og nota piparúða í Danmörku verði stúlkan líklega kærð.

Meintur árásarmaður gengur enn laus. Árásin varð nálægt miðstöð fyrir hælisleitenda og ekki er vitað hvort hann hafi verið hælisleitandi eða flóttamaður. 

Málið hefur vakið mikla reiði á samfélagsmiðlum og hefur fólk kallað eftir því að stúlkan verði ekki sektuð. „Það eru mannréttindi að fá að beita sjálfsvörn,“ sagði einn notandi. Aðrar hafa boðist til þess að borga sektina fyrir stúlkuna.

Samkvæmt frétt The Telegraph hafa konur í Sønderborg upp á síðkastið kvartað yfir áreitni frá karlkyns flóttamönnum sem halda til við hælisleitendamiðstöðina. Einn næturklúbbur í borginni hefur ákveðið að hleypa aðeins inni fólki sem talar þýsku, ensku eða dönsku, eftir að fjölmargar kvartanir bárust um áreitni frá erlendum mönnum inni á staðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert