Krani féll til jarðar í New York

Frá vettvangi í New York í dag.
Frá vettvangi í New York í dag. AFP

Byggingarkrani féll til jarðar á Manhattan í New York í Bandaríkjunum með þeim afleiðingum að einn lét lífið og tveir slösuðust. Kraninn féll fyrst á byggingu og síðan eftir endilöngu stræti og á nokkrar bifreiðar. Einn hinna slösuðu festist í bifreið sinni og þurftu slökkviliðsmenn að ná honum úr henni. Hinir slösuðu voru fluttir á sjúkrahús.

Haft er eftir vitni að atvikinu á fréttavef Daily Telegraph að rautt ljós hafi líklega bjargað lífi hans. Hann hafi beðið á rauðu ljósi þegar kraninn hefði fallið til jarðar fyrir framan bifreið hans. Ef hann hefði ekki þurft að bíða eftir grænu ljósi hefði hann líklega látið lífið. 

Borgarstjóri New York, Bill de Blasio, segir kraftaverk að ekki fór verr. Unnið hafi verið að því að lækka kranann þegar hann féll. Sá sem lét lífið sat í bifreið sinni sem hann hafði lagt við strætið. Talið er að vindhviða hafi orðið til þess að kraninn féll til jarðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert