Sanders varaforseti?

„Ég held að það sé óhætt að segja að á …
„Ég held að það sé óhætt að segja að á okkar verstu dögum erum við 100 sinnum betri en nokkur frambjóðandi repúblikana,“ sagði Sanders í gær. AFP

Svo virðist sem aukin harka sé að færast í kosningaslaginn hjá demókrötum en í kappræðum forsetaefna flokksins í New Hampshire í gær skaut Hillary Clinton föstum skotum að Bernie Sanders og ásakaði hann um að hafa staðið í ófrægingarherferð gegn sér. Þá sagði utanríkisráðherrann fyrrverandi að loforð Sanders um „byltingu“ stæðust ekki skoðun.

Gengið verður til forkosninga í New Hampshire eftir fimm daga en í byrjun þessarar viku fór Clinton með sigurorð af Sanders í Iowa, með minnsta mun sem um getur í sögu ríkisins.

Flestir gera ráð fyrir að Clinton hreppi útnefninguna en baráttan við hinn 74 ára öldungadeildarþingmann frá Vermont hefur reynst henni mun erfiðari en menn áttu von á. Sanders hefur verið einkar lunkinn við að höfða til yngri kjósenda og mun hafa betur en Clinton í New Hampshire, ef marka má kannanir.

Í kappræðunum í gær gerði Clinton tilraun til að ganga í augun á þeim kjósendum sem eru líklegir til að hallast að Sanders, sem margreyndur framfarasinni sem gæti bætt lífskjör Bandaríkjamanna. Clinton sagði að hún og Sanders væru sammála um mikilvæg markmið en að tölurnar á bakvið tillögur keppinautar síns gengju ekki upp.

Sanders, sem segist sósíaldemókrati, hamraði á andstöðu sinni gegn tærandi öflum Wall Street og áhrifum þeirra á lýðræðið í landinu. Hann sagði að Clinton gæti ekki bæði sagst vera hófsemdarmanneskja og framfarasinni og gagnrýndi hana fyrir að hafa tekið við 15 milljónum dala í kosningasjóði sína frá Wall Street.

„Nú er nóg komið,“ sagði Clinton þá. „Þessar árásir sæma þér ekki.“

Aukin harka hefur færst í kosningaslag demókrata og Clinton sagði …
Aukin harka hefur færst í kosningaslag demókrata og Clinton sagði í gær að loforð mótframbjóðanda síns gengju einfaldlega ekki upp. AFP

Sömu málefni, ólíkar aðferðir

Clinton sagði nóg komið af skítkasti og sagði Sanders aldrei myndu geta sýnt fram á að hún hefði skipt um skoðun vegna fjárframlaga. Sanders svaraði fyrir sig með því að halda því fram að milljarðamæringar græfu undan lýðræðinu með því að verja ómældum fjármunum til að styðja ákveðna frambjóðendur.

„Það sem okkur vantar er pólitísk bylting, þar sem milljónir standa upp og segja hátt og skýrt að stjórnvöld tilheyra okkur öllum og ekki bara handfylli af efnuðum styrktaraðilum,“ sagði hann.

Sanders lagði áherslu á sérstöðu sína og áköll sín um byltingu og endurbætur, þ. á m. ókeypis heilbrigðisþjónustu og framhaldsnám. Þau Clinton eru sem fyrr segir sammála um mörg brýn mál, en Clinton hefur talað fyrir hægari framförum.

Clinton biðlaði til þeirra sem hlýddu á að kjósa með hjartanu og höfðinu, og gaf í skyn að hún gæti vel hugsað sér Sanders sem varaforsetaefni. „Ef ég verð svo heppinn að hljóta útnefninguna, verður Sanders fyrsta manneskjan sem ég hringi í til að ráðfæra mig við um næstu skref.“

Sanders kallar eftir byltingu fólksins og hefur gagnrýnt meint kósýheit …
Sanders kallar eftir byltingu fólksins og hefur gagnrýnt meint kósýheit Clinton og Wall Street-jöfra. AFP

„100 sinnum betri“

Sanders, sem hefur ítrekað staðist freistinguna að nota tölvupóst-hneyksli ráðherrans fyrrverandi gegn henni, var kurteis að vanda. „Það vill þannig til að ég ber mikla virðingu fyrir ráðherranum. Ég vona að það sé gagnkvæmt og ég held að það sé óhætt að segja að á okkar verstu dögum erum við 100 sinnum betri en nokkur frambjóðandi repúblikana.“

Sanders hlaut 49,6% atkvæða í Iowa gegn 49,8% Clinton en samkvæmt könnun NBC og Wall Street Journal, sem var framkvæmd fyrir kappræðurnar í gær, nýtur hann 58% stuðnings í New Hampshire og Clinton aðeins 38%.

Munurinn er 76% gegn 24% í aldurshópnum 18-29 ára.

Eftir forkosningarnar á þriðjudag færist baráttan hins vegar til ríkja þar sem Clinton nýtur mikils stuðnings meðal minnihlutahópa; Nevada og Suður-Karólínu.

Hvað varðar kosningaslag repúblikana leiðir Trump kapphlaupið í New Hampshire og samkvæmt könnunum skipar öldungadeildarþingmaðurinn Ted Cruz, sem fór með sigur úr býtum í Iowa, þriðja sætið á eftir Marco Rubio.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert