Tugir þúsunda hafa flúið Aleppo

Hátt í 20 þúsund Sýrlendingar hafa safnast saman við landamærastöðina Bab al-Salama við landamæri Sýrlands að Tyrklandi eftir að hafa flúið frá sýrlensku borginni Aleppo í kjölfar bardaga um borgina. Þá hafa 5-10 þúsund manns komið til borgarinnar Azaz og 10 þúsund manns til kúrdneska bæjarins Afrin. Mannúðarsamtök vinna að því að koma nauðsynjum til flóttafólksins en átökin á svæðinu hafa gert þeim erfitt fyrir í þeim efnum.

Sýrlenski stjórnarherinn hóf mikla sókn að Aleppo á mánudaginn með aðstoð frá rússneskum herflugvélum en borgin hefur verið í höndum uppreisnarmanna. Sóknin hefur orðið til þess að tugir þúsunda manna hafa flúið borgina. Forsætisráðherra Tyrklands, Ahmet Davutoglu, varaði við því í gær að allt að 70 þúsund manns væru á leiðinni til tyrknesku landamæranna en fyrir í Tyrklandi eru um 2,5 milljónir sýrlenskra flóttamanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert