Sex handteknir vegna barnabrúðkaups

AFP

Lögreglan í Pakistan handtók í gær sex manns fyrir að hafa staðið fyrir brúðkaupi sjö ára drengs og sex ára stúlku í austurhluta landsins. Hinir handteknu eru feður barnanna, klerkurinn sem framkvæmdi giftinguna og þrír vottar að henni. 

Fram kemur í frétt AFP að fólkið eigi yfir höfði sér sex mánaða fangelsi og/eða háar sektir. Haft er eftir lögreglustjóranum Mehr Riaz Hussain að fólkið hafi neitað því að brúðkaupið hafi farið fram en lögreglan hafi undir höndum myndbandsupptöku.

Ennfremur segir að pakistanskir þingmenn hafi dregið til baka lagafrumvarp um harðari refsingar, fangelsi allt að tveimur árum, vegna barnabrúðkaupa eftir að trúarleiðtogar sögðu frumvarpið fela í sér guðlast og vera í andstöðu við íslam.

Frumvarpið hefði einnig þýtt að giftingaraldur kvenna væri hækkaður úr 16 árum í 18 ár. Trúarleiðtogarnir sögðu ákveðin aldurstakmörk ekki í anda sjaría-laga. Þvert á móti væri gert ráð fyrir að fólk gæti gengið í hjónaband þegar það yrði kynþroska.

Barnabrúðkaup eru enn algeng í sumum hlutum Pakistans segir í fréttinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert