Barnið lifnaði upp frá dauðum

AFP

Kínverskur nýburi sem hafði verið úrskurðaður látinn og hafði eytt nóttinni í líkhúsinu var með lífsmarki þegar brenna átti líkið. Þetta kemur fram í kínverskum fjölmiðlum í dag.

Það voru starfsmenn við líkbrennslu í Pan'an í Zheijiang héraði voru að undirbúa brennslu á líki drengsins á föstudag þegar hann byrjaði allt í einu að kveina. Drengurinn hafði verið úrskurðaður látinn daginn áður og hafði „lík“ hans verið geymt í líkhúsinu í fimmtán tíma í tólf stiga frosti þegar undirbúningur brennslunnar hófst.

Starfsmenn líkhússins brugðust hratt við og létu föður drengsins vita og var drengurinn fluttur með skyndi á gjörgæsludeild sjúkrahússins. „Þetta er í fyrsta skipti sem ég upplifi svona. Þetta er svo sannarlega kraftaverk,“ segir læknir á Pan-an sjúkrahúsinu en drengurinn er fyrirburi sem fæddist í janúar. Honum var haldið í hitakassa á vökudeild í 23 sólarhringa en faðir hans hafði fengið að fara með hann heim á mánudag í tilefni kínversku nýárshátíðarhaldanna sem hófust þá. En líðan drengsins versnaði örfáum dögum eftir heimkomuna og var hann úrskurðaður látinn 4. febrúar eftir að hjarta hans hætti að slá. 

Áður en drengurinn var færður í líkhúsið pakkaði faðir hans honum í tvö lög af fatnaði og í svefnpoka. Talið er að það hafi bjargað lífi hans í frostinu í líkhúsinu. En læknar eru hins vegar efins um að drengurinn muni hafa þetta af. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert