Miklar óeirðir í Hong Kong

Lögregla í Hong Kong skaut viðvörunarskotum og notaði piparúða snemma í morgun en óeirðir brutust út þegar fulltrúar yfirvalda reyndu að færa ólöglega götusala. Eru átökin þau verstu sem hafa átt sér stað síðan tekist var á um aukið lýðræði árið 2014.

Lögregla segir að nærri 90 lögreglumenn hafi særst vegna glerbrota eða annarra hluta. Þá eru tugir mótmælenda sagðir hafa særst í átökunum.

Myndbandsupptökur sýna þá taka múrsteina úr gangstéttum í hinu fjölfarna Mongkok-hverfi, ráðast til atlögu gegn lögreglu með heimagerða skildi í hendi og kveikja í rusli úti á götum.

Til eins lögreglumanns sást þar sem hann beindi byssu sinni að mannfjölda sem fleygði múrsteinum, flöskum og viðarbútum að lögreglu. Lögregla skaut að minnsta kosti tveimur viðvörunarskotum til lofts samkvæmt fjölmörgum þarlendum fjölmiðlum en það mun vera sjaldgæfur atburður í borginni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert