Greind með Zika-veiruna í Ástralíu

Zika-veiran er helst talin smitast með moskítóflugum.
Zika-veiran er helst talin smitast með moskítóflugum. AFP

Þunguð kona hefur verið greind með Zika-veiruna í Ástralíu. Heilbrigðisyfirvöld þar í landi greindu frá þessu í dag en konan smitaðist þegar að hún var á ferðalagi erlendis. Áströlsk yfirvöld hafa hvatt þungaðar konur til þess að forðast svæði þar sem Zika-veiran hefur skotið upp kollinum, en veiran er talin valda alvarlegum fæðingagalla.

Konan var greind með Zika-veiruna í gær en hún býr í Queensland fylki. Hún kom nýlega heim eftir að hafa verið á ferðalagi erlendis.

Þetta er þriðja tilfellið af Zika-veirunni í Queensland á árinu og smitaðist allt fólkið erlendis. Einkenni Zika-veirunnar eru yfirleitt ekki alvarleg og minna heldur á milda flensu. Vísindamenn telja þó líkur á því að þegar að þunguð kona veikist af Zika-veirunni getur það orðið til þess að fóstrið fæðist með dverghöfuð sem er alvarlegur fæðingagalli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert