Játar framhjáhald og lætur af þingmennsku

Kensuke Miyazaki
Kensuke Miyazaki AFP

Japanskur þingmaður, sem var mjög í fréttum japanskra fjölmiðla í síðasta mánuði þegar hann var fyrsti karlþingmaður landsins til þess að óska eftir fæðingarorlofi, sagði af sér þingmennsku í dag og játaði að hafa haldið fram hjá konu sinni þegar hún var komin á steypirinn.

Kensuke Miyazaki á fundi með fjölmiðlum í morgun
Kensuke Miyazaki á fundi með fjölmiðlum í morgun AFP

Þingmaðurinn Kensuke Miyazaki baðst í dag afsökunar á því að hafa valdið uppþoti en hann tilkynnti á fundi með blaðamönnum í dag að hann segði af sér þingmennsku.

Þegar Miyazaki óskaði eftir því í janúar að fá að taka fæðingarorlof varð uppi fótur og fit í japönsku samfélagi. Töldu margir að með því væri hann að vanrækja skyldur sínar sem þingmaður en aldrei áður hefur japanskur karlkynsþingmaður óskað eftir því að fá að taka fæðingarorlof.

Kensuke Miyazaki og eiginkona hans Megumi Kaneko en hún er …
Kensuke Miyazaki og eiginkona hans Megumi Kaneko en hún er einnig þingmaður AFP

Fyrr í vikunni birti japanska slúðurblaðið Shukan Bunshun mynd af Miyazaki og konu, sem samkvæmt fréttinni er sundfatafyrirsæta og sérfræðingur í því hvernig eigi að klæðast kimono. yfirgefa heimili hans í Kyoto. Samkvæmt frétt blaðsins var myndin tekin nokkrum dögum áður en eiginkona hans, stjórnmálamaðurinn Megumi Kaneko, fæddi barn 5. febrúar. Þau eru bæði flokksfélagar í Frjálslyndum demókrötum sem eru í stjórn landsins.

Í dag viðurkenndi Miyazaki framhjáhaldið og að hann myndi segja af sér þingmennsku fyrir Kyoto-kjördæmi. Hann segist hafa kynnst fyrirsætunni þegar hún aðstoðaði hann og fleiri þingmenn að klæðast kimono á upphafsfundi þingsins á nýju ári, 4. janúar sl.

Kensuke Miyazaki og eiginkona hans Megumi Kaneko en þessi mynd …
Kensuke Miyazaki og eiginkona hans Megumi Kaneko en þessi mynd var tekin af þeim í þinginu í ágúst sl. AFP

Hann segist reka minni til þess að hafa hitt hana þrisvar eftir það. Þau séu ekki lengur í sambandi. Að sögn Miyazaki hefur hann útskýrt málið fyrir eiginkonu sinni og hann sjái mjög eftir því að hafa hegðað sér á þennan hátt. 

Þegar hann var spurður að því hvort hann hafi átt í ástarsamböndum við aðrar konur sagðist hann ekki geta hafnað því. Hann bað síðan um að eiginkona hans og barn fengju frið fyrir ágangi fjölmiðla.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert