Trump gersigraður í tveimur ríkjum

Marco Rubio vann góðan sigur í Washington D.C. Kosið verður …
Marco Rubio vann góðan sigur í Washington D.C. Kosið verður í heimaríki hans Flórída á þriðjudag. AFP

Þó að auðjöfurinn Donald Trump hafi átt góðu gengi að fagna í forvali repúblikana fyrir forsetakosningarnar fram að þessu átti hann ekki upp á pallborðið hjá kjósendum í Wyoming og Washington-borg þar sem kosið var í gær. Í höfuðborginni vann Marco Rubio en Ted Cruz í Wyoming. Trump var víðsfjarri í þriðja sæti.

Hvorugt svæðið skilar mörgum kjörmönnum og of snemmt er að segja til um hvort að úrslitin séu til marks um vatnaskil í stuðningi kjósenda repúblikana við frambjóðendurna í forvalinu. Washington-borg er nær alfarið á valdi demókrata en aðeins sex prósent skráðra kjósenda þar eru repúblikanar.

Þar hafði Marco Rubio sigur með 37,3% atkvæði en John Kasich. Trump var í þriðja sæti með 13,8% atkvæða. Í Wyoming var útkoma auðkýfingsins kjaftfora enn verri. Þar hafði öldungadeildarþingmaðurinn Ted Cruz yfirburðasigur með 66,3% atkvæða. Trump varð einnig þriðji þar með aðeins 7,2% atkvæða en Rubio var annar með 19,5%.

Einnig var kosið á yfirráðasvæðum Bandaríkjanna á Norður-Maríanaeyjum í Kyrrahafi og Guam. Hillary Clinton vann forvalið demókrata á Norður-Maríanaeyjum, sem var það fyrsta þar, en Ted Cruz fór með sigur af hólmi í forvali repúblikana í Guam.

Næsti stóru dagur í kosningabaráttu frambjóðendanna er á þriðjudag en þá verið kosið í fimm ríkjum sem ráða yfir fjölda kjörmanna: Flórída, Illinois, Missouri, Norður-Karólínu og Ohio. Dregið gæti til tíðinda að forkosningunum þar loknum. Flórída er heimaríki Marco Rubio og John Kasich er ríkisstjóri Ohio. Fái frambjóðendurnir ekki góðan stuðning þar gæti verið úti framboð þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert