Vildi mótmæla kynþáttafordómum

Donald Trump sækist eftir því að verða næsti forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump sækist eftir því að verða næsti forseti Bandaríkjanna. AFP

Maðurinn sem truflaði kosningafund Donalds Trump í Ohio-ríki í Bandaríkjunum um helgina vildi koma á frambæri skilaboðum gegn kynþáttafordómum og „ofbeldisfullum hugmyndum um yfirburði hvíta kynstofnsins“.

Tomas DiMassimo olli miklu uppnámi þegar hann reyndi á laugardaginn að ráðast upp á svið í borginni Dayton þar sem Trump var að ljúka ræðu sinni.

Tækifærissinni og heigull 

„Ég hugsaði með mér að Donald Trump væri yfirgangsseggur og ekkert annað en það,“ sagði hinn 22 ára háskólanemi við CNN.

„Hann segir fullt af djörfum hlutum en ég sé í gegnum það og finnst hann í raun vera heigull. Hann er tækifærissinni og tilbúinn til að eyðileggja landið sitt til að hann geti öðlast völd,“ sagði DiMassiomo.

Öryggisverðir komu í veg fyrir að hann kæmist upp á sviðið.

„Tengist Ríki íslams“

Trump setti á netið tengil með myndbandi sem virtist sýna DiMassimo með byssu og fána Ríkis íslams. Arabísk tónlist hljómaði yfir myndum úr mótmælagöngu gegn kynþáttafordómum þar sem Massimo dregur bandaríska fánann eftir jörðinni.

„Leyniþjónustan stóð sig frábærlega við að koma í veg fyrir að brjálæðingurinn kæmist upp á svið. Hann tengist Ríki íslams. Hann ætti að vera í fangelsi,“ tísti Trump á Twitter.

Massimo kveðst síður en svo tengjast öfgafullri íslamstrú. „Mig langaði að fara upp á svið og taka púltið frá honum og senda skilaboð til allra landsmanna sem eru ekki fordómafullir og myndu ekki samþykkja ofbeldið sem Donald Trump leyfir á kosningafundum sínum,“ sagði hann.

Markmið hans var að „senda þau skilaboð að við getum sýnt styrk og staðið uppi í hárinu á Donald Trump og ofbeldisfullum hugmyndum hans um yfirburði hvíta kynstofnsins“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert