Fórust í bruna á meðferðarheimili

Eldsvoði. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki.
Eldsvoði. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki. AFP

Tólf manns eru látnir í bruna á meðferðarheimili fyrir fíkniefnaneytendur í Rússlandi í nótt. Rannsakendur segja að svo virðist sem að fólkið hafi látist úr kolmónoxíðeitrun. Ekki var hægt að opna glugga hússins innan frá og stálhurð lokaði útgangi rýmisins þar sem fólkið var vistað.

Nágrannar segja að í húsinu hafi verið einkarekið meðferðarheimili en það er í bænum Sterlitamak í Bashkortostan-héraði, um 1.200 kílómetra austur af Moskvu. Héraðsstjórinn segir að fólkið hafi verið í starfsmeðferð til að losa það undan „skaðlegum ávönum“. Hann ætlar að krefjast rannsóknar á hvers vegna tólf manns voru vistaðir i litlu herbergi með byrgðum gluggum og málmhurð.

Um tvær klukkustundir tók fyrir slökkvilið að ráða niðurlögum eldsins sem kom upp. Fólkið hafði enga sjáanlega áverka og því er talið að það hafi látist af völdum eiturgufa sem frá eldinum stafaði. Tvær konur og tíu karlar létust í eldsvoðanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert