Faycal C. látinn laus úr haldi

Faycal C. hefur verið látinn laus úr haldi vegna skorts á sönnunargögnum gegn honum. Hann var á laugardag ákærður fyrir morð í hryðjuverkaárás en nú virðist sem ekki séu nægar sannanir fyrir því að hann tengist hryðjuverkunum. 

Í tilkynningu sem ríkissaksóknari í Belgíu sendi frá sér nú síðdegis kemur fram að vísbendingar þær sem leiddu til handtöku Fayacl C hafi ekki fært nægar sönnur á að hann tengist rannsókninni sem er í gangi. Því hafi hann verið látinn laus í dag. Ekki er útskýrt frekar í tilkynningunni hvað átt er við. 

Fljótlega eftir að tilkynnt var um að Faycal C. hefði verið ákærður birtu belgískir fjölmiðlar upplýsingar um manninn sem heitir Faycal Cheffou fullu nafni og er sjálfstætt starfandi blaðamaður. Talið var að hann væri „maðurinn með hattinn“ sem sést með sjálfsvígsárásarmönnunum á flugvellinum í Brussel skömmu fyrir árásina þar á þriðjudag. Í dag birti síðan saksóknaraembættið myndskeið úr öryggismyndavélum flugvallarins þar sem óskað er eftir upplýsingum um manninn með hattinn.

Faycal Cheffou
Faycal Cheffou AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert