Flýja grimmd og leita vonar

Mörg hundruð börn dvelja í móttökubúðum í Úganda á degi …
Mörg hundruð börn dvelja í móttökubúðum í Úganda á degi hverjum. UNICEF gengur mjög hægt að safna fé til að sinna neyðarhjálp í heimalandi þeirra, Suður-Súdan. mbl.is/Kristín Heiða

Konur og börn eru í miklum meirihluta suðursúdönsku flóttamannanna sem fylla móttökubúðirnar í Adjumani-héraði í Úganda. Skýringin er einföld: Karlmennirnir eru annaðhvort dánir eða að berjast í borgarastyrjöldinni, margir gegn vilja sínum. Ekki er útilokað að jafnmargir hafi fallið í Suður-Súdan síðustu tvö ár og í stríðinu í Sýrlandi. Það er ómögulegt að áætla fjölda látinna, lík eru étin jafnóðum af hýenum og krókódílum. Margir hafa einnig soltið í hel eða dáið úr sjúkdómum. Það er sömuleiðis ómögulegt að vita fjölda þeirra stúlkna og kvenna sem hefur verið nauðgað í þessum grimmilegustu þjóðernishreinsunum síðari ára.

Kærkomið steypiregn

Rykið frá gulrauðu moldinni þyrlast upp. Það er þó mun minna en í gær og síðustu mánuði þegar ekkert rigndi. Í nótt opnuðust himnarnir loks og vöknuðu þúsundir flóttamanna frá Suður-Súdan upp við þrumur og eldingar í Úganda. Og kærkomið var þetta steypiregn. Allt er hreinna og ferskara. Nema hugurinn sem ótal flóknar hugsanir fara nú í gegnum. Þeir eru komnir í nýtt land, burt frá stríði, vonleysi, þurrkum og uppskerubresti. En hvað bíður þeirra?

Bræður, 10 go 13 ára, með bróður sinn, Opio, í …
Bræður, 10 go 13 ára, með bróður sinn, Opio, í fanginu. Opio á tvíburasystur. Þau eru 3 mánaða og þurfa nú þurrmjólk því móðir þeirra Helen, missti mjólkina. mbl.is/Kristín Heiða

Er hann á lífi?

„Ég kom hingað vegna barnanna,“ segir Helen Minga, 35 ára 11 barna móðir, og strýkur þriggja mánaða dóttur sinni, Achan, mjúklega um kollinn á meðan hún sýgur brjóstið. Hún fær þó ekki dropa af næringu þaðan í augnablikinu. Á ýmsu hefur gengið í lífi Helen og nú hefur hún misst mjólkina. „Maðurinn minn var dreginn að víglínunni, ég átti enga peninga til að framfleyta börnunum. Ég varð að fara.“

Barnahópurinn er stór og það hefur ekki verið auðvelt að koma honum öllum yfir landamærin. En það tókst Helen. Nú situr hún í tjaldi í Úganda, langt frá heimkynnum sínum. Henni við hlið eru tveir ungir synir hennar með tvíburabróður Achan, Opio litla, í fanginu. „Ég á ekki von á að eiginmaður minn komi hingað. Ég hef ekki séð hann frá því áður en tvíburarnir fæddust. Ég veit ekki hvort ég sé hann aftur. Ég veit það eitt að hann var fluttur á vígstöðvarnar. Er hann enn á lífi? Ég veit það ekki.“

Helen segir stríðið hafa haft áhrif á allt og alla í Suður-Súdan. Innviðir landsins eru bókstaflega í molum, hvort sem horft er til heilbrigðisþjónustu, skólakerfisins eða samgangna og fjarskipta. Nú hafa svo sögulegir þurrkar, sem taldir eru orsakast af loftslagsbreytingum, bætt enn á neyð fólksins. Um tvær milljónir hafa flúið heimili sín og mun fleiri eiga á hættu að svelta í hel. Tæp milljón manna hefur því flúið til nágrannalandanna, flestir til Úganda. Þangað hefur fólkið ekki komist án þess að klofa yfir beinagrindur og rotnandi lík fórnarlamba stríðsins. Slíkur er viðbjóðurinn.

Eins og svart og hvítt

Þetta fólk á litla von um að fá hæli í Evrópu. Það hefur flúið örbirgð en þarf nú að búa við fátækt í landi sem tekur vel á móti flóttamönnum en hefur ekki upp á mörg tækifæri til betra lífs að bjóða. Að vera flóttamaður þýðir nefnilega ekki það sama alls staðar í heiminum. Kjör þeirra eru misjöfn, eins og svart og hvítt.

Nash Juma, lengst til hægri, ásamt tveimur ungum mönnum sem …
Nash Juma, lengst til hægri, ásamt tveimur ungum mönnum sem kann kynntist í móttökubúðunum. Þeir eru allir á flótta frá Suður-Súdan. mbl.is/Kristín Heiða

„Ég var hræddur. Ég er enn hræddur. Ég veit ekkert hvar fjölskyldan mín er,“ segir Nash Juma, 23 ára. Hann kom til Úganda í febrúar. Nú bíður hann í móttökubúðunum í Adjumani-héraði þar sem flóttamenn eru skráðir og heilsufar þeirra skoðað. „Mamma og pabbi, – ég veit ekki hvar þau eru,“ segir hann. Hann óttast nú að þau séu látin. Það er ekki ólíklegt. Sameinuðu þjóðirnar segja að frá því að borgarastyrjöldin hófst í þessu yngsta ríki heims í desember árið 2013 hafi að minnsta kosti 50 þúsund fallið en mannúðarsamtök sem þar starfa segja töluna mun hærri, jafnvel á pari við það sem átt hefur sér stað í Sýrlandi.

Í heimalandinu hafði Nash reynt að ganga í skóla. Það er hans stærsti draumur að halda því áfram. En hann er langt á eftir í náminu og veit ekki hverjir möguleikar hans í Úganda eru. „En ég veit að þeir eru betri en í Suður-Súdan. Þar var ástandið mjög slæmt.“

Nú styttist í að hann verði fluttur úr móttökubúðunum í flóttamannabyggðirnar, lítil þorp í héraðinu sem líkjast þorpum heimamanna. Hann hlakkar til því í búðunum er ekkert við að vera, þó að hægt sé að sparka í fótbolta á leikvellinum sem ætlaður er börnum. Annars snýst lífið ekki um neitt annað en að bíða. Bíða eftir næstu máltíð. Eftir fregnum að heiman. Bíða eftir að fá samastað. „Ég vona að nú fari lífið að batna,“ segir Nash.

Allt er skárra en Suður-Súdan

Um 210 þúsund flóttamenn frá Suður-Súdan hafa komið til Úganda á síðustu tveimur árum. Í byrjun árs færðist aukin harka í átökin og það er til marks um ástandið að margir flúðu til Mið-Afríkulýðveldisins og Austur-Kongó. Allt er skárra en Suður-Súdan. Þar skiptast stjórnarhermenn og uppreisnarhópar á að brenna niður þorp, nauðga konum og stúlkum, gelda drengi, drepa karlmennina eða þvinga þá til að slást í hópinn. Eins og svo oft áður er það saklaust fólk, aðallega börn, sem þjáist mest.

Börn á barnvænu svæði UNICEF í móttökubúðunum í Úganda.
Börn á barnvænu svæði UNICEF í móttökubúðunum í Úganda. mbl.is/Kristín Heiða

„Þó að börnin séu komin hingað frá Suður-Súdan, jafnvel ein, þá eru aðstæðurnar auðvitað ekki góðar. Þau eru hrædd og óörugg. Þetta er mjög slæmt,“ segir Isac sem kom til Úganda frá Juba, höfuðborg Suður-Súdans, í lok febrúar ásamt eiginkonu sinni og börnum. Hann hefur tekið að sér eins konar forystuhlutverk í móttökubúðunum. Talar máli einstakra flóttamanna við starfsmenn þeirra stofnana sem þar starfa. Hann segir að um hríð hafi ástandið í Juba verið sæmilegt. Nú fari það versnandi og það hratt. Matur sé orðinn af skornum skammti og óöryggið mikið. „Það er alltaf hætta á skothríð. Að fá í sig byssukúlu. Þess vegna þurftum við að leita skjóls annars staðar.“

Hundruð barna eru á degi hverjum í móttökubúðunum í Adjumani. Helst vilja þau vera á barnvænu svæði UNICEF. Þar geta þau m.a. sótt kennslustundir í ensku og listum. „Börn vilja leika sér,“ segir Mike Jacob, starfsmaður UNICEF á svæðinu. „Hér gleyma þau sér og fá að njóta þess að vera börn. Og þau vilja helst ekki fara!“ segir hann og hlær. „Þegar þau eru hér eru þau hamingjusöm, það er eins og öll vandamálin þurrkist út. Þau skilja allt sem þau hafa upplifað eftir fyrir utan svæðið, stríð og hörmungar.“

Flóttafólkið þarf að hafast við í móttökubúðunum í nokkrar vikur …
Flóttafólkið þarf að hafast við í móttökubúðunum í nokkrar vikur áður en það er flutt í flóttamannabyggðirnar. 50-70 manns sofa saman í hverju tjaldi. Það eru oft andvökunætur. mbl.is/Kristín Heiða

Svo er það þetta stríð

En stríðið er staðreynd og afleiðingar þess á líðan og aðstæður fólks skelfilegar. Þótt börnin gleymi sér í leik um hríð bítur sár veruleikinn fljótt í hjartað. Líklega hvað sárast hjá börnum sem eru ein á ferð, eiga engan að.

Á síðustu mánuðum hafa yfir 400 börn komið fylgdarlaus í búðirnar í Úganda. Eruaga Charles er eitt þessara barna. Hann kom einn síns liðs yfir landamærin, hafði ekkert meðferðis nema snjáð fötin sem hann klæðist. Aðeins fimmtán ára gamall stendur hann í miðju búðanna og lítur í kringum sig. Hér þekkir hann engan. Starfsmenn UNICEF fylgjast sérstaklega með honum og munu reyna að útvega honum fósturfjölskyldu. „Ég missti föður minn, ég á enga fjölskyldu nema móður mína og hún er enn í Suður-Súdan,“ segir hann.

Eruaga Charles kom einn í búðirnar. Hann hefur misst föður …
Eruaga Charles kom einn í búðirnar. Hann hefur misst föður sinn og þekkir engan í Úganda. mbl.is/Kristín Heiða

Eruaga á stóra drauma. Það var þess vegna sem hann ákvað að koma til Úganda. Þeir hefðu að engu orðið í heimalandinu. „Ég þrái að komast í framhaldsskóla,“ segir hann. „En ég átti enga peninga. Og svo er það þetta stríð. Þannig að ég varð að koma hingað til að komast í skóla.“

Eruaga er þrátt fyrir það sem á undan er gengið yfirvegaður. Með báða fætur á jörðinni. En þar vill hann ekki vera. Hann vill fljúga. „Mig langar að verða flugmaður,“ segir hann ákveðinn og andlitið ljómar við tilhugsunina eina.

Og það er rétt, Eruaga getur gengið í skóla í Úganda. Hvort hann kemst í flugnámið er hins vegar alls óvíst. Slíkt kostar skildinginn og tækifæri hans til að afla tekna eru fá.

Heimamenn njóta góðs af

Í flóttamannabyggðunum, sem finna má víða um norðurhluta Úganda, hafa stofnanir og hjálparsamtök reist skóla og heilsugæslur og borað eftir vatni. Heimamenn láta land af hendi undir byggðirnar en fá í staðinn að njóta þeirrar þjónustu sem byggð er upp. Oftast gengur sambúðin vel og flóttamennirnir aðlagast fljótt. En sagan segir okkur að þeir yfirgefa fæstir flóttamannabyggðirnar. Þar eyða þeir líklega flestir allri sinni ævi.

Þegar flóttafólkið kemur úr móttökubúðunum og í flóttamannabyggðirnar fær það úthlutað landskika og sveðju til að byggja sér lítil hús. Húsin eru flest úr leir með þéttu og regnheldu stráþaki. Þar er að finna litlar verslanir sem áræðnir flóttamenn reka og í miðju þorpanna er mat úthlutað daglega. Byggðirnar eru því engan veginn sjálfbærar og verða það líklega seint.

Alimah hefur lyklavöldin að vatnshreinsistöðinni. Hún er ánægð með að …
Alimah hefur lyklavöldin að vatnshreinsistöðinni. Hún er ánægð með að hafa vinnu í flóttamannabyggðinni. mbl.is/Kristín Heiða

Alimah er aðeins tvítug en hún gegnir miklu ábyrgðarhlutverki í flóttamannabyggðinni sinni. Hún sér um að allt gangi smurt fyrir sig í vatnshreinsistöðinni, lífæð fólksins á svæðinu. Hún hefur lyklavöldin og fyrir þetta fær hún greitt. Það kemur sér vel því erfitt er að verða sér úti um vinnu í einangruðu samfélagi flóttamannanna. „Þetta er góð vinna,“ segir hún og hlær.

Þrátt fyrir að atvinnutækifæri séu fá, skikarnir litlir og skólarnir ekkert til að hrópa húrra fyrir segist flóttafólkið vissulega hafa það betra í Úganda en í Suður-Súdan. Þar réðu aðeins vonleysið og óttinn ríkjum. Við slíkar aðstæður er ákvörðun um að leggja á flótta tekin.

Ajok er ólétt að sjöunda barninu sínu. Hún á aðeins stutt eftir af meðgöngunni. Um tvö ár eru síðan hún kom til Úganda og henni líður vel í flóttamannabyggð sem telur um 7.000 manns. Í dag er hún klædd í rauðan glansandi kjól. Og brosið hennar er breitt. „Við höfum það gott hérna,“ segir hún létt í bragði þar sem hún stendur fyrir utan litla kofann sinn sem hún tók sjálf þátt í að reisa. „Það er stríð heima. Herinn er í átökum við uppreisnarmenn. Það er verið að drepa saklaust fólk, konur meðal annars. Þess vegna kom ég hingað.“

Ajok er ólétt af sínu sjöunda barni.
Ajok er ólétt af sínu sjöunda barni. mbl.is/Kristín Heiða

Ajok missti bróður sinn í stríðinu. Hún segir flesta í þorpinu hafa misst einhvern nákominn. „Það var orðið mjög erfitt að vera heima. Já, mig langar að fara aftur, ef það kemst á friður. En á meðan ástandið er svona ótryggt fer ég ekki héðan.“

Raddirnar sem ekki heyrast

Fréttir af hinu miskunnarlausa stríði í Suður-Súdan rata sjaldan í fjölmiðla. Raddir íbúanna heyrast varla. Ofbeldismennirnir geta því unnið sín hroðaverk óáreittir. Og það gera þeir svo sannarlega. Í byrjun árs komust Sameinuðu þjóðirnar að því að stjórnarhermenn fengju ekki greidd laun en í staðinn fengju þeir að nauðga konum og stúlkum eins og þá lysti.

„Það er auðveldara að finna konu sem hefur lent í hópnauðgun í Suður-Súdan heldur en stúlku sem er læs,“ skrifar Nicholas Kristof, blaðamaður New York Times, sem var nýlega á vettvangi.

„Þarna er nú verið að fremja ein hrikalegustu mannréttindabrot í heiminum í dag, þar sem nauðganir eru notaðar sem tæki til að hræða og sem vopn í stríði,“ segir Zeid Ra'ad al-Hussein, yfirmaður mannréttinda hjá Sameinuðu þjóðunum. „Samt sem áður veit alþjóðasamfélagið nánast ekki af þessu.“

Jacob Opiyo, svæðisstjóri UNICEF í Úganda, á erfitt með að orða svar sitt þegar hann er spurður hvort hann telji að flóttamennirnir geti snúið aftur heim. „Auðvitað vonum við það,“ segir hann hikandi. „Það er þeirra val þegar þar að kemur... ef það kemur að því.“

Adut og Angeth eru átta ára. Þær eru mjög ánægðar …
Adut og Angeth eru átta ára. Þær eru mjög ánægðar í skólanum sínum og ætla að verða kennarar þegar þær verða stórar. mbl.is/Kristín Heiða
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert