Sænskur öfgamaður bendlaður við árásirnar

Lögreglumenn í Brussel þar sem miklar aðgerðir hafa staðið yfir …
Lögreglumenn í Brussel þar sem miklar aðgerðir hafa staðið yfir gegn grunuðum hryðjuverkamönnum. AFP

Einn mannanna sem voru handteknir í aðgerðum lögreglu í Brussel í gær er Osama Krayem, sænskur ríkisborgari frá Malmö. Hann hefur verið ákærður fyrir „hryðjuverkamorð“. Heima fyrir er hans minnst sem vandræðaunglings sem reykti og drakk áður en hann gerðist skyndilega róttækur og hélt til Sýrlands.

Belgískir saksóknarar segja að Krayem hafi sést tala stuttlega við Khalid El Bakraoui rétt áður en sá síðarnefndi sprengdi sig í loft upp í neðanjarðarlestarstöð í Brussel 22. mars. Hann er einnig sagður hafa sést á öryggismyndavélum kaupa poka sem voru notaðir til að bera sjálfsmorðssprengjurnar sem tveir árásarmenn notuðu til að sprengja sig í loft upp á Zavantem-flugvelli sama dag.

Krayem kemur frá Rosengard-hverfi í Malmö, sama hverfi og sænska knattspyrnustjarnan Zlatan Ibrahimovic ólst upp í. Hann er 23 ára gamall sonur sýrlenskra flóttamanna. Fólk sem þekkti hann þar segja hann hafa verið venjulegan en iðjulausan ungan mann úr verkamannastétt sem lagði fyrir sig smáglæpi á milli þess sem hann tók eiturlyf og bað bæna. Engan grunaði að hann myndi snúast til róttækni og halda til Sýrlands til að heyja heilagt stríð.

„Hann kemur úr venjulegri fjölskyldu sænskra múslíma. Faðir hans leggur ekki velþóknun sína yfir hann og móðir hans hefur verið svo döpur síðan hann fór til Sýrlands að hún hefur veikst,“ er haft eftir fjölskylduvin Krayem-fjölskyldunnar.

„Klassískur kokteill“ jaðarsetningar og róttækni

Vinir hans lýsa því þannig að hann hafi skyndilega og óvænt gerst róttækur. Hann hafi hlustað á prédikanir bandaríska ímamsins Anwar al-Awlaki, fyrrverandi leiðtoga al-Qaeda á Arabíuskaga sem var drepinn árið 2011. Áður en hann hvarf skyndilega snemma árs í fyrra hafi hann reynt að fá trúbræður sínar til að berjast í Sýrlandi.

Hann birtist seinna á Facebook-mynd í Sýrlandi þar sem hann sést einkennisklæddur með Kalashnikov-riffil og fána Íslamska ríkisins í bakgrunni.

Rannsókn lögreglu hefur leitt í ljós að Krayem hafi komið til grísku eyjarinnar Leros í september þar sem hann skráði sig undir nafninu Naim al-Hamed. Í október hafi hann birst í borginni Ulm í Þýskalandi þar sem hann var sóttur í bílaleigubíl sem Salah Abdeslam, höfuðpaur hryðjuverkaárásarinnar í París, leigði.

Í viðtali við AFP-fréttastofuna segir Magnus Ranstorp, sérfræðingur í róttækum hreyfingum íslamista við sænska varnarmálaháskólann, að Krayem sé afurð þess sem sé nú „klassískur kokteill“ félagslegrar jaðarsetningar, hugmyndafræðilegrar róttækni og glæpamennsku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert