Fyrirtækin styðja hinsegin fólk

mbl.is/Kristinn

PayPal og Bank of America eru meðal þeirra fyrirtækja sem hafa sett sig upp á móti nýrri löggjöf í Mississippi og Norður-Karólínu, sem gengur freklega gegn réttindum hinsegin fólks. Yfirlýsing fyrirtækja í kjölfar lagabreytinganna þykir til marks um auknar kröfur almennings um að fyrirtæki sýni samfélagslega ábyrgð.

Löggjöfin í Mississippi heimilar einstaklingum og lögaðilum að neita fólki um þjónustu á trúargrundvelli, en í Norður-Karólínu hefur löggjafinn m.a. skikkað transfólk til að nota þau salerni sem ætluð eru því kyni sem ákvarðað var við fæðingu.

PayPal hefur í kjölfarið fallið frá 3,6 milljóna dala fjárfestingu í nýjum höfuðstöðvum í ríkinu og í Mississippi hefur Nissan, stærsti atvinnurekandinn í ríkinu, og Duke Energy, stærsta orkufyrirtækið, tekið harða afstöðu gegn mismunun á grundvelli kynhneigðar.

„Þessir hálfvitar tala um samkynhneigðar konur og samkynhneigða karlmenn og nota sama tungumál og þeir notuðu á 6. og 7. áratugnum um aðskilnaðarstefnuna,“ segir matreiðslumaðurinn John Currence, sem rekur nokkra veitingastaði í Oxford í Mississippi.

Hann segir að fyrirtæki muni veigra sér við því að opna rekstur í ríkinu undir þessum kringumstæðum.

Ivo Kamps, prófessor við University of Mississippi, segir að löggjöfin muni gera skólanum erfitt fyrir að laða að nemendur og kennara.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert