Handtóku hundruð mótmælenda

Óeirðarlögreglan beitti táragasi á mótmælendur.
Óeirðarlögreglan beitti táragasi á mótmælendur. AFP

Þýska óeirðarlögreglan handtók í dag um 400 mótmælendur sem höfðu safnast saman fyrir utan fundarstað þjóðernisflokksins AfD þar sem samþykkja átti stefnuskrá flokksins sem felur í sér harða andstöðu við íslam.

Flokkurinn, Annar kostur fyrir Þýskaland, AfD, er meðal þeirra þjóðernishreyfinga sem fengið hafa byr undir báða vængi í kjölfar straums innflytjenda til Evrópu.

Ráðstefna flokksins fór fram í Stuttgart og höfðu fleiri hundruð manns safnast saman fyrir utan bygginguna til að mótmæla. Þeir kveiktu í dekkjum og sprengdu púðurkellingar og reyndu að koma í veg fyrir að meðlimir AfD kæmust inn í bygginguna. 

Óeirðalögreglan mætti á svæðið og notaði táragas á mótmælendur og fengu meðlimir AfD lögreglufylgd inn í bygginguna. 

AfD nýtur nú um 14% fylgis en flokkurinn hefur í hyggju að bjóða fram í þingkosningunum á næsta ári.

Flokkurinn var stofnaður fyrir þremur árum. Hann hefur breytt um stefnu frá stofnun og er nú að marka sér sess sem hægriöfgaflokkur sem berst gegn íslam og áhrifum þeirra trúarbragða á Evrópu. Flokksmenn vilja m.a. banna konum að klæðast búrkum og byggingu bænaturna í Þýskalandi.

Frá flokksþingi AfD (Alternative fuer Deutschland) í Stuttgart í dag.
Frá flokksþingi AfD (Alternative fuer Deutschland) í Stuttgart í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert