Trump vill reynslumikla manneskju

Donald Trump, væntanlegur forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins.
Donald Trump, væntanlegur forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins. AFP

Donald Trump, væntanlegur forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, ætlar að hafa sér við hlið í framboðinu einhvern með pólitíska reynslu sem getur átt í góðu samstarfi við þingið.

Trump hefur sjálfur litla pólitíska reynslu og því vill hann að varaforsetaefnið sitt bæti upp fyrir það.

„Það verður líklega einhver með pólitíska reynslu,“ sagði Trump í viðtali við sjónvarpstöðina ABC, morguninn eftir að helsti andstæðingur hans, Ted Cruz, heltist úr lestinni.

„Ég myndi vilja hafa einhvern sem getur átt góð samskipti við öldungadeildina, þingið og getur komið lögum þangað í gegn.“

Repúblikanar eru missáttir við gott gengi Trump en með góðu varaforsetaefni gæti hann unnið fleiri á sitt band.

Flokksþing repúblikana verður haldið í Ohio í júlí og líklegt er að Trump tilkynni um varaforsetaefni sitt skömmu áður.

Trump vildi ekki nefna nein nöfn í viðtalinu við ABC og sagði að margir kæmu til greina.

Trump fagnar sigrinum í Indiana í nótt.
Trump fagnar sigrinum í Indiana í nótt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert