Læknamistök þriðja algengasta dánarorsökin

Læknamistök eru talin þriðja algengasta dánarorsök í Bandaríkjunum.
Læknamistök eru talin þriðja algengasta dánarorsök í Bandaríkjunum. STRINGER

Læknamistök eru nú þriðja algengasta dánarorsök í Bandaríkjunum og valda dauða 251 þúsund manns á ári hverju. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem leidd var af Martin Makary, skurðlækni við John Hopkins háskólasjúkrahúsið í Bandaríkjunum. Aðeins hjartasjúkdómar og krabbamein valda fleiri dauðsföllum þar í landi.

Í frétt Washington post um málið segir að hryllingssögur um mistök í heilbrigðiskerfinu hafi verið áberandi í fjölmiðlum undanfarið. Niðurstöður rannsóknarinnar setji þetta í samhengi, en um sé að ræða 9,5% allra dauðsfalla í Bandaríkjunum. Segir Makary að ástæða dauðsfallanna sé allt frá beinum mistökum slæmra lækna yfir í kerfislega galla og samskiptavandamál milli heilbrigðisstarfsfólks.

Flest dauðsföll verða vegna hjartasjúkdóma, eða um 614 þúsund. Í öðru sæti er krabbamein, en það orsakar dauða um 592 þúsund manns. Á eftir læknamistökum eru svo lungna- og öndunarsjúkdómar en í rannsókninni kemur fram að um 147 þúsund látist árlega vegna þess. Í næstu sætum þar á eftir koma slys, heilablóðföll, Alzheimers og sykursýki.

Árið 1999 vakti grein í tímaritinu Institute of Medicine um læknamistök mikla athygli. Þar kom fram að rekja mætti 98 þúsund dauðsföll á ári til læknamistaka. Rannsókn Makary tekur aftur á móti til meira magns gagna úr fjórum stórum rannsóknum. Niðurstaðan sé um 150% hærri tala en fyrir 17 árum síðan.

Segir Makary að heilbrigðisþjónustan geti lært talsvert af fluggeiranum. Þar séu aðferðalýsingar fyrir flest allt og þegar óhöpp eða mistök verði sé það rannsakað og svo birt öllum þannig að það gagnist allri greininni til að læra af. Segir Makary að horfa ætti á heilbrigðisþjónustu sömu augum, enda um öryggi samfélagsins að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert