Studdi umkomulaus börn í Afganistan

Prince vildi ekki að góðverk sín færu hátt.
Prince vildi ekki að góðverk sín færu hátt. AFP

Tónlistarmaðurinn Prince var þekktastur fyrir tónlist sína og skrautlegan klæðnað, en nú hefur komið á daginn að hann var einnig dyggur stuðningsmaður verkefnis í Afganistan, sem miðaði að því að þjálfa skátaforingja til að annast umkomulaus börn.

Prince lét þúsundir dollara renna til Physiotherapy and Rehabilitative Support for Afganistan (PARSA), góðgerðasamtaka sem láta sér annt um konur og börn. Framlög tónlistargoðsins, sem lést á dögunum, hafa fjármagnað þjálfun 100 skátaforingja sem hafa nú 2.000 börn í sinni umsjá, að sögn framkvæmdastjóra PARSA.

Áhugi Prince á Afganistan kviknaði eftir að vinkona hans, mannvinurinn Betty Tisdale, heimsótti landið árið 2010. Tisdale, sem lést í fyrra 87 ára, var þekkt fyrir störf sín með munaðarleysingjum í Víetnam og stóð fyrir því að 200 börnum var bjargað úr landinu í lok Víetnamstríðsins árið 1975.

„Hún spurði mig hvaða verkefni vantaði stuðning og ég sagði henni frá gamalli byggingu sem okkur langaði að breyta í þjálfunarbúðir fyrir skátaforingja,“ segir Marnie Gustavson. „Þegar hún fór heim sendi hún 15.000 dollara ávísun, alveg óvænt.“

Ávísunin kom frá Prince, sem hélt áfram að styðja verkefnið á hverju ári.

HALO, góðgerðastofnun Tisdale, staðfesti í dag að hún hefði veitt fjármagni til PARSA fyrir hönd Prince. Að sögn Gustavson vildi tónlistarmaðurinn ekki hafa hátt um góðverk sín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert