Boaty McBoatface lifir

Teikning af rannsóknaskipinu sem mun hljóta nafnið RRS Sir David …
Teikning af rannsóknaskipinu sem mun hljóta nafnið RRS Sir David Attenborough en ekki Boaty McBoatface. AFP

Valið á nafni rannsóknaskips breska umhverfisrannsóknaráðsins hefur hlotið heimsathygli eftir að nafnið Boaty McBoatface varð ofan á í netkosningu. Nú hefur verið ákveðið að skipið verði nefnt eftir David Attenborough en einn fjarstýrðra kafbáta þess fái nafnið sem gæti útlagst Báti Bátmundsson á íslensku.

Miklar vangaveltur höfðu verið uppi um hvort að rannsóknaráðið færi að vilja þátttakenda í netkosningunni eða veldi skipinu annað og virðulegra nafn. Boaty McBoatface fékk fjórum sinnum fleiri atkvæði en nokkuð annað nafn í henni. Vísindamálaráðherrann Jo Johnson sagði að til væru hentugri nöfn á skipið sem á að kosta 200 milljónir punda í smíðum og verður notað til rannsókna á heimsskautunum.

Niðurstaðan varð sú að skipið verður nefnt RRS Sir David Attenborough eftir náttúrufræðingnum og heimildamyndagerðarmanninum ástsæla nokkrum dögum áður en hann verður níræður. Attenborough segist vera heiðraður með nafngiftinni.

„Við erum í skýjunum yfir nafninu RRS Sir David Attenborough. Hann er mikilvæg opinber persóna sem virkjað að veitt kynslóðum almennings innblástur með ástríðu sinni fyrir heimi náttúrunnar,“ segir Jane Francis, framkvæmdastjóri bresku suðurskautsrannsóknastofnunarinnar.

Fjarstýrður kafbátur gerður verður út frá rannsóknaskipinu fær nafnið Boaty McBoatface sem fær þannig að lifa áfram. RRS Sir David Attenborough á að vera tilbúið árið 2019 og verður fullkomnasta pólrannsóknaskip heims.

Nafnavalið hefur hins vegar dregið dilk á eftir sér. Vísinda- og tækninefnd breska þingsins hefur kallað fulltrúa umhverfisrannsóknaráðsins á sinn fund eftir helgi til að ræða hvort að netkosningin hafi verið vel heppnuð tilraun til að virkja áhuga almennings eða stórslys í almannatengslum.

Frétt BBC

Fyrri fréttir mbl.is:

Boaty McBoatface kæfður í fæðingu?

Boaty McBoatface gæti siglt um höfin

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert