Panama-skjölin baktjaldamakk stórveldanna

Juan Carlos Varela, forseti Panama.
Juan Carlos Varela, forseti Panama. AFP

Afhjúpun Panama-skjalanna er í raun birtingarmynd deilna bak við tjöldin milli stórra valdhafa í heiminum. Þar spilar pólitík stóran sess og rétt væri fyrir þessi lönd að heyja baráttuna heima fyrir en ekki í Panama. Þetta sagði Juan Carlos Varela, forseti Panama, fyrr í dag rétt áður en Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna, ICIJ, opnuðu fyrir aðgang að upp­lýs­ing­um um 200 þúsund af­l­ands­fé­lög sem pana­míska lög­fræðistof­an Mossack Fon­seca kom að.

„Það sem ég tel ekki vera gott er þegar stórir valdhafar sem vilja berjast nota Panama sem vígvöll,“ sagði Varela og bætti við: „Ef þeir vilja berjast ættu þeir að gera það í eigin löndum en ekki nota fjármála- og efnahagskerfi okkar.“

Sagði Varela að yfirvöld í Panama væru búin undir hvaðeina sem kæmi í ljós í kvöld þegar skjölin yrðu birt og bætti við að skjölin væru vandamál alþjóða fjármálakerfisins en ekki vandamál Panama. „Þetta er alheimsvandi,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert