Segist ekki vera múslimaleiðtogi

Nýkjörinn borgarstjóri Lundúna, Sadiq Khan.
Nýkjörinn borgarstjóri Lundúna, Sadiq Khan. AFP

Sadiq Khan, nýkjörinn borgarstjóri Lundúna, segist ekki vera múslimaleiðtogi en hann er fyrsti músliminn í sögunni til að vera kjörinn borgarstjóri í stórri vestrænni borg.

„Við skulum hafa það á hreinu að ég er ekki múslimaleiðtogi eða talsmaður múslima. Ég er borgarstjóri Lundúna. Ég tala fyrir hönd allra Lundúnabúa,“ sagði hinn 45 ára Khan á blaðamannafundi.

Khan, sem er sonur pakistanskra innflytjenda, bætti við að kosning hans sýndi að „það er mögulegt að vera múslimi og Vesturlandabúi. Vestræn gildi samrýmast hinum íslömsku gildum“.

Sadiq Khan ásamt Anne Hidalgo, borgarstjóra Parísar, í Lundúnum.
Sadiq Khan ásamt Anne Hidalgo, borgarstjóra Parísar, í Lundúnum. AFP

Hann endurtók gagnrýna sína á bandaríska frambjóðandann Donald Trump, sem hefur lagt til að öllum múslimum verði bannað að koma til Bandaríkjanna. Khan sagði að Trump væri „fáfróður um íslam og væri að „spila hlutina upp í hendurnar á öfgasinnum“.

Frétt mbl.is: Myndi gera undantekningu fyrir Khan

Khan endurtók einnig stuðning sinn við áframhaldandi veru Breta í Evrópusambandinu en þjóðaratkvæðagreiðsla um málið verður haldin 23. júní. Sagði hann aðildina að ESB nauðsynlega fyrir hagsæld Lundúna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert