Táragasi beitt gegn mótmælendum

Til átaka kom á milli lögreglunnar og mótmælenda í höfuðborg …
Til átaka kom á milli lögreglunnar og mótmælenda í höfuðborg Venesúla í dag. AFP

Venesúelskar öryggissveitir beittu táragasi á hóp mótmælenda í Caracas, höfuðborg landsins, í dag. Mótmælendurnir krefjast þess að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um framtíð Nicolas Maduro, forseta Venesúela, á valdastóli.

Um var að ræða þriðja mótmælafundinn gegn Maduro á sjö dögum. Þúsundir mótmælenda flykktust út á götur miðbæjarins, að sögn fréttaveitunnar Reuters, en leið þeirra lá að höfuðstöðvum yfirkjörstjórnar landsins.

Til átaka kom á milli öryggissveita og mótmælenda en táragasi var beitt á um hundrað mómælendur. „Þeir eru hræddir. Venesúelabúar eru þreyttir, hungraðir,“ sagði einn þeirra, Alfredo Gonzalez.

Átök brutust einnig út á miðvikudaginn í seinustu viku en þá leysti herinn mótmælin upp með táragasi eftir að mótmælendur köstuðu grjóti að lögreglu.

Maduro, sem tók við forsetaembættinu eftir lát Hugo Chavez árið 2013, sakar stjórnarandstæðinga í Venesúela um tilraun til valdaráns með hjálp bandarískra stjórnvalda.

Bandalag stjórnarandstöðuflokka, sem náði meirihluta á þinginu í síðustu kosningum, safnaði nýverið 1,85 milljónum undirskrifta þar sem skorað er á stjórnvöld í landinu að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort forsetinn eigi að láta af völdum. Stjórnarskrá landsins heimilar það ef eitt prósent kosningabærra manna krefst svo, en ríkisstjórnin segist ekki ætla að boða til kosninga.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert