Hægrisinnaðasta stjórn Ísraels

Avigdor Lieberman (t.v.) og Benjamín Netanyahu (t.h.) tilkynna um samkomulag …
Avigdor Lieberman (t.v.) og Benjamín Netanyahu (t.h.) tilkynna um samkomulag þeirra um að flokkur þess fyrrnefnda komi inn í ríkisstjórn. AFP

Harðlínuþjóðernissinninn Avigdor Lieberman tekur sæti í ríkisstjórn Benjamíns Netanyahu sem varnarmálaráðherra Ísraels samkvæmt samkomulagi sem þeir tilkynntu um í dag. Það á að styrkja samsteypustjórn Netanyahu sem hefur stuðst við nauman meirihluta. Stjórnin er sögð verða sú hægrisinnaðasta í sögu Ísraels.

Skipan Lieberman í embætti varnarmálaráðherra hefur valdið stjórnarandstæðingum, og sumum innan Líkúdflokks Netanyahu sjálfs, áhyggjum. Hann hefur haldið uppi hatrömmum málflutningi gegn Palestínumönnum í gegnum tíðina. Þegar tilkynnt var um samkomulagið hét Lieberman því að vera „rólegur“ og að hann ætlaði sér að framfylgja „ábyrgri og skynsamlegri stefnu“.

Hann tekur við af Moshe Yaalon úr Líkúd sem sagði af sér sem varnarmálaráðherra á föstudag vegna uppgangs öfgaafla í stjórnarflokknum og landinu sem heild. Leiðtogar Palestínumanna hafa fordæmt aðkomu Lieberman að ríkisstjórninni.

Lieberman er 57 ára gamall og kemur úr Yisrael Beitenu-flokknum sem á fimm fulltrúa á ísraelska þinginu. Hann hefur áður gegnt ráðherraembætti sem utanríkisráðherra 2009–2012 og aftur 2013–2015. Sem innanríkisráðherra kemur það í hans hlut að framfylgja stefnu ísraelskra stjórnvalda á hernumdu svæðunum og sjá um varnir gegn árásum Palestínumanna.

Hann hefur verið herskár í máflutningi sínum í gegnum tíðina. Þannig talaði hann fyrir því að varpa sprengjum á Aswan-stífluna í Egyptalandi árið 2001 þegar hann taldi þarlend stjórnvöld styðja við uppreisn Palestínumanna. Fyrir tveimur árum kallaði hann Mahmud Abbas, forseta Palestínu, „diplómatískan hryðjuverkamann“.

Fyrr á þessu ári sakaði hann suma þingmenn á ísraelska þinginu af arabískum uppruna um að vera fulltrúa hryðjuverkasamtaka. Hann hótaði einnig Ismail Haniya, leiðtoga Hamas á Gasaströndinni. Haniya fengi 48 klukkustundir til að skila tveimur ísraelskum borgurum og líkum hermanna sem voru felldir í stríðinu árið 2014.

„Annars ertu dauður,“ sagði verðandi varnarmálaráðherra Ísraels.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert