Reyna aftur að framselja Polanski

Leikstjórinn Roman Polanski.
Leikstjórinn Roman Polanski. AFP

Pólsk yfirvöld ætla að gera nýja tilraun til að framselja Óskarsverðlaunaleikstjórann Roman Polanski til Bandaríkjanna. Þar á hann yfir höfði sér fangelsisvist eftir að hafa verið ákærður fyrir nauðgun árið 1977.

Zbigniew Ziobro, dómsmálaráðherra Póllands, tilkynnti að hann ætlaði að áfrýja til hæstaréttar fyrri dómi um að Polanski yrði ekki framseldur.

„Hann er ákærður fyrir hræðilegan glæp gegn barni, nauðgun á barni,“ sagði ráðherrann við pólska útvarpsstöð.

Lögfræðingur hins 82 ára fransk-pólska leikstjóra, Jerzy Stachowicz sagði við AFP-fréttastofuna að þessar fregnir kæmu ekki á óvart.

„Við bjuggumst við þessu. Ziobro hefur áður greint frá því að hann ætlaði að gera þetta. Við ætlum ekki að tjá okkur um þetta sem stendur því við vitum ekki hvort hann hefur þegar gert þetta eða hvort hann ætlar að gera þetta,“ sagði Stachowicz.

Í október síðastliðnum úrskurðaði héraðsdómur í borginni Kraká að Polanski skyldi ekki framseldur til Bandaríkjanna.  

Frétt mbl.is: Framsali Polanski hafnað

Polanski er eftirlýstur í Bandaríkjunum eftir að hafa verið ákærður fyrir að hafa nauðgað Samantha Geimar árið 1977. Hún var 13 ára og hann 43 ára.

Leikstjórinn flúði land af ótta við að fá þungan dóm. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert