Klofin eftir kyni

Munurinn á Clinton og Trump er innan skekkjumarka könnunarinnar þegar …
Munurinn á Clinton og Trump er innan skekkjumarka könnunarinnar þegar tekið er tillit til fylgis frambjóðenda minni flokka. AFP

Hillary Clinton er með örlítið forskot á Donald Trump á landsvísu í nýrri skoðanakönnun sem birt var í dag. Hún leiðir enn fremur í ljós að bandaríska þjóðin er klofin eftir kyni og flokkslínum. Eins og í fyrri könnunum mælist Bernie Sanders með meira forskot á Trump ef kosið yrði á milli þeirra.

Könnun Quinnipiac-háskóla sýnir að 45% kjósenda styðja Clinton en 41% Trump. Þegar frambjóðendur annarra flokka eru teknir með inn í myndina hefur Clinton aðeins tveggja prósentustiga forskot á frambjóðandi repúblikana. Vikmörk könnunarinnar voru þrjú prósentustig.

Sanders mælist með níu prósentustiga forskot á Trump þegar þátttakendur eru beðnir um að gera upp á milli þeirra tveggja.

Niðurstaðan er sögð benda til þess að stuðningsmenn stóru flokkanna tveggja séu að fylkja sér að baki frambjóðendanna. Þannig styðja 86% repúblikana Trump og 90% demókrata Clinton.

Kyn kjósenda virðist skipta miklu þegar kemur að stuðningi við frambjóðendurna. Þannig styður 51% karlmanna Donald Trump en 54% kvenna styðja fyrrverandi utanríkisráðherrann Clinton.

Svarendur í könnuninni telja Clinton gáfaðri og með meira siðferðisþrek en Trump er talinn meiri leiðtogi og hvetjandi. Trump er einnig betur treyst til að skapa störf og taka hart á Ríki íslams en Clinton frekar í innflytjendamálum og til að taka á alþjóðlegum uppákomum.

Frétt New York Times af könnuninni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert