Vonar að Sanders gefist upp fljótlega

Obama mætti í þátt Jimmy Fallon í gærkvöldi.
Obama mætti í þátt Jimmy Fallon í gærkvöldi. AFP

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, vonar að Bernie Sanders muni fljótlega viðurkenna ósigur í forkosningum demókrata en Hillary Clinton lýsti yfir sigri á þriðjudagskvöldið. Sanders hefur þó heitið því að halda áfram að berjast þar til á flokksþingi demókrata í næsta mánuði.

Obama ræddi um forkosningarnar í þætti Jimmy Fallon í gærkvöldi. Sagði hann að kosningabarátta Sanders hafi verið heilbrigð fyrir flokkinn. „Mér finnst að Bernie Sanders hafi komið með gríðarlega mikla orku inn í flokkinn og nýjar hugmyndir. Þar að auki ögraði hann flokknum. Mér fannst það gera Hillary að betri frambjóðanda,“ sagði forsetinn. Bætti hann við að hann vonaðist til þess að á næstu vikum gæti flokkurinn sameinast um Clinton.

Clinton lýsti yfir sigri í forkosningum flokksins á þriðjudaginn eftir að hún bar sigur úr býtum í forkosningunum í fjórum af sex ríkjum sem kosið var í sama dag. Sanders hefur þó bent á að hún fái útnefninguna ekki formlega fyrr en á flokksþingi Demókrataflokksins í júlí og að hann muni berjast þangað til.

Obama mun funda með Sanders á morgun og er talið að þá muni hann hvetja þingmanninn til þess að ljúka kosningabaráttu sinni svo að flokkurinn geti komið heim og saman og einbeitt sér að því að sigra frambjóðanda Repúblikanaflokksins, Donald Trump.

Obama á þó eftir að lýsa yfir stuðningi við Clinton formlega en talið er líklegt að hann geri það fljótlega. Clinton var utanríkisráðherra í ríkisstjórn Obama en hann sigraði hana í forkosningum flokksins fyrir forsetakosningarnar 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert