Aðgerð Berlusconis sögð vel heppnuð

Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu.
Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu. AFP

Fyrstu vísbendingarnar benda til þess að hjartaaðgerð Silvios Berlusconis, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, hafi heppnast. Þetta segir Gianni Letta, vinur Berlusconis, við fjölmiðla í landinu.

„Allt er í lagi, nú get ég andað léttar,“ sagði Letta við AGI-fréttastofuna eftir aðgerðina. Búist er við að Berlusconi verði á gjörgæslu næstu daga.

Aðgerðin sjálf tók fjóra klukkutíma. Um var að ræða opna hjartaaðgerð sem var gerð í kjölfar hjartaáfalls sem Berlusconi fékk og reið honum næstum að fullu. Skipt var um ósæðaloku í hjarta hans.

Fjölmiðlar sáu Francescu Pascale, kærustu Berlusconi, í gegnum glugga á spítalanum skömmu eftir að aðgerðin hófst. Grét hún mikið í vasaklút og virtist áhyggjufull.

Sjá frétt mbl.is: Berlusconi í hjartaaðgerð

Berlusconi á fimm börn úr tveimur hjónaböndum og voru öll börnin viðstödd aðgerðina sem var framkvæmd á San Raffaele-spítalanum í Mílanó.

„Þegar hann kom á spítalann var hann í slæmu ástandi og í lífshættu. Hann var nálægt því að deyja og hann vissi það vel sjálfur,“ sagði Alberto Zangrillo, yfirlæknir á San Raffaele í síðustu viku eftir að Berlusconi var lagður inn.

Zangrillo sagði einnig þegar Berlusconi var lagður inn að hann byggist við að hann myndi ná fullri heilsu eftir um mánuð. Hins vegar er heilsa hans þannig að læknirinn telur um 10% líkur á að hann lifi ekki af árið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert