Handtóku sex í tengslum við árás í lest

Lögregla í Brussel. Mynd úr safni.
Lögregla í Brussel. Mynd úr safni. AFP

Lögregla í Belgíu handtók í dag sex manns í tengslum við misheppnaða árás á lest á leið frá Amsterdam til Parísar. 21. ágúst fór Marokkómaðurinn Ayoub El Khazzani um borð í lestina í Brussel, vopnaður m.a. Kalashnikov-riffli, en var yfirbugaður af hópi Bandaríkjamanna og Breta þegar hann hóf skothríð.

Árásarmaðurinn er enn í haldi lögreglu en dómari í málinu fyrirskipaði sex húsleitir í Brussel í dag, þar af fjórar í Molenbeek-hverfinu, sem er talið að margir íslamskir öfgamenn haldi sig. Hinar tvær voru í Woluwe-Sain-Lambert hverfinu og Haren.

Í yfirlýsingu frá saksóknara kemur fram að sex hafi verið handteknir og yfirheyrðir. Engin vopn eða sprengiefni fundust í húsleitunum. Það verður ákveðið í dag hvort að fólkinu verði áfram í haldi. 

Belgísk yfirvöld ákærðu á laugardaginn þrjá menn fyrir „tilraun til hryðjuverka“ eftir húsleitir á tugum heimila í landinu.

Khazzani bjó hjá systur sinni í Molenbeek áður en hann fór um borð í fyrrnefnda lest í ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert