Sviðsettu andlát sex ára dóttur sinnar

Ellie var sex ára gömul þegar hún lést.
Ellie var sex ára gömul þegar hún lést. Skjáskot/Sky News

Karlmaður á fertugsaldri hefur verið fundinn sekur um að hafa myrt sex ára dóttur sína. Ellefu mánuðum fyrir andlát stúlkunnar fengu maðurinn og móðir stúlkunnar börn sín aftur frá barnaverndaryfirvöldum.

Ben Butler, faðir stúlkunnar, er 36 ára. Hann veitti dóttur sinni Ellie alvarlega höfuðáverka á heimili þeirra í Bretlandi í október árið 2013 þegar hann var heima með börn parsins. Við réttarhöldin í málinu voru áverkarnir sagðir sambærilegir þeim sem þeir sem lenda í árekstri við bíl á miklum hraða hljóta. Jennie Gray, 36 ára móðir stúlkunnar, var dæmd í 42 mánaða fangelsi.

Foreldrarnir hringdu ekki þegar í stað í neyðarlínuna eftir andlát stúlkunnar heldur biðu með það í tvær klukkustundir. Fyrst eyðilagði parið sönnunargögn og sviðsetti andlát stúlkunnar til að láta líta út fyrir að hún hefði dottið. Þau létu systkini hennar einnig fara inn í herbergi til hennar til að bjóða henni í köku.

Ellie og systkini hennar voru tekin frá foreldrum sínum um tíma eftir að Butler var sakaður um að hafa hrist stúlkuna þegar hún var sjö mánaða gömul. Hann var fundinn sekur um að hafa beitt stúlkuna ofbeldi en dómurinn var ógildur.

Við réttarhöldin kom einnig fram að Butler hafi verið atvinnulaus síðustu mánuðina sem Ellie lifði. Hann varð mjög skapvondur og sendi konu sinni fjölmörg ofbeldisfull skilaboð. Þá æsti hann sig oft við börn sín.

Umfjöllun Sky.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert