Hélt að barnið væri að grínast

Dóttir Feeley uppi á klósettinu.
Dóttir Feeley uppi á klósettinu. Af Facebook

Bandarísk móðir hélt á dögunum að þriggja ára dóttir hennar væri aðeins að grínast þegar hún kom að henni standandi uppi á klósetti í skólanum og tók mynd af henni. „Ég hélt hún væri að gera eitthvað krúttlegt,“ sagði Stacey Feeley, en myndin hefur vakið gríðarlega athygli eftir að Feeley deildi henni á Facebook. Ástæða þess að dóttir hennar stóð upp á klósettinu var sú að hún var að æfa hvernig á að fela sig fyrir mögulegum árásarmanni eftir að hafa verið kennt það í skólanum.

Feeley lýsir því hvernig hún brotnaði saman þegar að dóttir hennar útskýrði hvað hún væri að gera. Margir hafa tjáð sig um myndina og hefur það komið mörgum á óvart að svona ungt barn þurfi að æfa hluti sem þessa. En Feeley bendir á að þetta sé aðeins bandarískur veruleiki en aðeins þremur dögum áður en hún tók myndina drap byssumaður í Orlando 49 manns sem var blóðugasta skotárás í sögu Bandaríkjanna.

„Stjórnmálamenn, skoðið þetta. Þetta er barnið þitt, ykkar börn, barnabörnin ykkar, barnabarnabörnin ykkar og komandi kynslóðir,“ skrifaði Feeley á Facebook. „Líf þeirra og upplifun þeirra á þessum heimi byggist á ykkar ákvörðun,“ og vísaði til byssulöggjafarinnar í landinu sem margir hafa kallað eftir að verði breytt.

Bandaríska öldungadeildaþingið kaus á dögunum gegn því að erfiðara verði að útvega sér vopn í Bandaríkjunum.

Viðbrögðin við mynd Feeley hafa verið misjöfn en fólk er yfirleitt á sama máli um að það sé hræðilegt að svona ungt barn þurfi að kunna að fela sig fyrir árásarmanni. Aðrir Bandaríkjamenn sögðust vera miður sín yfir myndinni á meðan útlendingar sögðust ekki skilja samband Bandaríkjamanna við vopn. Myndinni hefur verið deilt tæplega 30.000 sinnum.

Pistil Feeley í heild má sjá hér að neðan.

Umfjöllun CNN.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert