Jagúrarinn Juma drepinn eftir myndatökuna við ólympíueldinn

Jagúarinn Juma var skotinn er hann slapp úr fjötrum sínum, …
Jagúarinn Juma var skotinn er hann slapp úr fjötrum sínum, eftir að búið var að mynda hann kirfilega tjóðraðan við ólympíueldinn. AFP

Jagúar, sem var látinn taka þátt í afhendingu ólympíueldsins, var drepinn er hann slapp frá dýraþjálfara sínum. Ein af skiptistöðvum boðhlaupsins með ólympíueldinn var í Jungle Warfare Instruction Center-dýragarðinum í Manaus í Brasilíu á mánudag og voru birtar myndir af jagúarnum Juma, kirfilega tjóðruðum við hlið hlaupara með ólympíueldinn.

Á fréttavef CNN er greint frá því að Juma hafi sloppið eftir afhendingu eldsins og að teymi dýralækna og hermanna hafi reynt að handsama hann.  Juma hafi verið skotinn með deyfilyfi, en hann hafi náð að stökkva í átt að hermanni og í kjölfarið hafi hann verið drepinn með byssuskoti til að verja hermanninn og aðra í teyminu.

Í yfirlýsingu frá skipuleggjendum Ólympíuleikanna í Ríó segir að það hafi verið mistök að láta hlaupa með eldinn um garðinn. Ólympíueldurinn sé táknmynd friðar og sameiningar ólíkra þjóða og það hafi verið mistök að mynda eldinn við hliðina á villtu dýri sem var búið að tjóðra. „Þessi myndbirting brýtur í bága við trú okkar og gildi. Atburðirnir í kjölfar boðhlaupsskiptingarinnar hryggja okkur og við  munum tryggja að sambærilegar aðstæður munu ekki sjást aftur í tengslum við Ólympíuleikana í Ríó.“

Jagúar, sem er stærsta kattdýr Ameríku, er ein þeirra dýrategunda sem nálgast það að vera í útrýmingarhættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert