Norður-Kórea með flugskeytaskot í trássi við bann

Yfirvöld í Norður-Kóreu leggja mikla áherslu á hervæðingu landsins.
Yfirvöld í Norður-Kóreu leggja mikla áherslu á hervæðingu landsins. AFP

Norðurkóreski herinn skaut í dag tveimur skotflaugum í tilraunaskyni í trássi við bann Sameinuðu þjóðanna, samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum í Suður-Kóreu.

Talið er að fyrra skotið hafi misheppnast, en sú flaug lenti í sjónum eftir um 150 km ferðalag.

Seinni flaugin flaug um 400 km leið, en báðar skotflaugarnar voru að sögn yfirmanna í suðurkóreska hernum Musudan-flaugar í millistyrk.

Hafi seinna skotið heppnast þá er það stórt skref fram á við fyrir hervæðingu Norður-Kóreu sem hefur í fjórgang misheppnast að senda slík tilraunaskot á undanförnum mánuðum.

Fréttavefur BBC segir yfirvöld í Suður-Kóreu og Bandaríkjunum rannsaki nú ýtarlega seinna skotið og hvort það teljist hafa heppnast.

Norður-Kórea vinnur að því að koma upp eigin kjarnavopnum þó að samþykkt Sameinuðu þjóðanna kveði á um að ríkið megi ekki nota neinar gerðir skotflauga.

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hefur fordæmt skotin í dag og segir talsmaður ráðuneytisins, John Kirby, tilraunir Norður-Kóreumanna eingöngu til þess fallnar að auka þrýsting á að stöðva vopnavæðingu landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert