Bretar kjósa um ESB-aðild í dag

Þessi húðflúrstofa býður upp á ókeypis húðflúr fyrir þá sem …
Þessi húðflúrstofa býður upp á ókeypis húðflúr fyrir þá sem eru tilbúnir að skreyta sig með hæðnisskilaboðum um ESB eða stuðning við Brexit. AFP

Búið er að opna kjörstaði í Bretlandi og milljónir Breta munu í dag kjósa um það hvort þeir vilji að Bretland tilheyri áfram Evrópusambandinu, eða hvort landið eigi að segja skilið við ESB. Síðustu skoðanakannanir sýna lítinn mun á fjölda þeirra sem vilja vera áfram í ESB og þeirra sem vilja ganga úr sambandinu.

Hörð kosningabarátta hefur verið háð í Bretlandi undanfarnar vikur og mánuði. Innan ESB fylgjast menn mjög náið með kosningunum, enda telja margir að gangi Bretar úr ESB geti það verið kveikjan að verstu tilvistarkreppu sambandsins frá upphafi.

46,5 milljónir eru á kjörskrá og spurningin á kjörseðlinum er: „Á Bretland að vera áfram í Evrópusambandinu, eða á það að yfirgefa sambandið?“

Kjósendur þurfa svo að haka við annan tveggja möguleika: „Tilheyra áfram Evrópusambandinu“ eða „Yfirgefa Evrópusambandið“.

Fjöldi kjósenda var mættur þegar kjörstaðir opnuðu klukkan sjö í morgun og að sögn AFP fréttastofunnar bíða fjármálamarkaðir heims niðurstöðu kosninganna með mikilli spennu, enda virðist ríkja mikil óvissa um úrslitin.

Ekki er von á neinum útgönguspám vegna kosninganna og því er talið að ekki verði tilkynnt um fyrstu tölur fyrr en þrjú í nótt að staðartíma.

Tvær skoðanakannanir sem birtar voru í gær bentu til þess að þeir sem vilja ganga úr ESB séu örlítið fleiri, var munurinn á milli eitt og tvö prósent sem þykir innan skekkjumarka.

Símakönnun sem unnin var fyrir dagblaðið Daily Mail og fréttatíma ITV-sjónvarpsstöðvarinnar benti þó til þess að munurinn væri meiri, en samkvæmt þeirri könnun eru 48% þeirrar skoðunar að Bretar eigi að yfirgefa ESB á meðan 42% vilja vera áfram í sambandinu.

Dagur sjálfstæðis eða uppgjörs?

Fjármálastofnanir gera ráð fyrir auknu álagi í dag og eiga von á miklum viðskiptum en samkvæmt AFP eru seðlabankar margra ríkja tilbúnir að bregast við hver sem útkoman verður.

Kosningabaráttan þykir hafa sýnt fram á gjá milli Breta hvað varðar veru landsins í ESB. Götublaðið Sun, sem er fylgjandi því að Bretar segi sig úr ESB, sló fyrirsögninni „Sjálfstæðisdagur“ upp á forsíðu sinni á meðan Times, sem telur Bretum betur borgið í ESB, skartaði fyrirsögninni „Uppgjörsdagur“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert