Demókratar í setuverkfalli vegna byssulöggjafar

Sumir þingmanna sátu á gólfi þingsalarins og aðrir komu með …
Sumir þingmanna sátu á gólfi þingsalarins og aðrir komu með svefnpoka og kleinuhringi. AFP

Þingmenn Demókrataflokksins standa nú fyrir setuverkfalli í neðri deild Bandaríkjaþings til að krefjast atkvæðagreiðslu um skotvopnalöggjöf landsins.

Mótmæli þingmannanna koma í kjölfar mannskæðustu skotárásar í sögu Bandaríkjanna, er Omar Mateen myrti 49 manns á skemmtistaðnum Pulse í Orlando fyrr í þessum mánuði.

Þingforsetinn og repúblikaninn Paul Ryan reyndi að ná stjórn á þingsalnum en uppskar köll frá þingmönnum, sem hrópuðu: „Ekkert frumvarp, ekkert hlé!“

Repúblikanar hafa látið stöðva beina útsendingu C-Span frá þinginu, en þingmenn Demókrataflokksins hafa haldið beinum útsendingum úr þingsal áfram í gegnum farsíma sína.

Það telst brot á reglum þingsins að stöðva útsendingu C-Span. Scott Peters, þingmaður demókrata, hefur þó bent á að setuverkfallið sé líka brot á þingreglum.

168 af 188 þingmönnum Demókrataflokksins og 34 af 44 öldungadeildarþingmönnum flokksins, tóku þátt í aðgerðunum í gærkvöldi og nótt. Sumir tóku setuverkfallið bókstaflega og sátu á gólfinu.

Er mótmælin höfðu staðið yfir í tíu tíma reyndi Ryan að ná stjórn á þinginu með því að boða þinghlé, en demókratar mótmæltu þeirri tilraun kröftuglega og kölluðu „Hneisa! Hneisa!“ og héldu uppi spjöldum með nöfnum fólks sem fallið hefur í skotárásum þegar Ryan yfirgaf ræðustólinn.

Með svefnpoka og kleinuhringi í þingsal

Mikil upplausn var í þingsal þegar þingmenn beggja flokka hrópuðu hver á annan, en sumir þingmenn demókrataflokksins höfðu tekið svefnpoka, teppi og kodda með sér inn í þingsalinn á  meðan að aðrir mættu með kleinuhringi fyrir kollega sína.

Nokkur hundruð stuðningsmenn breytinga á skotvopnalöggjöfinni hafa safnast saman fyrir utan þinghúsið til að sýna þingmönnum demókrata stuðning.

Laura Bicker, fréttamaður BBC í Washington segir undirrót mótmælanna vera vonbrigði vegna áralangra tilrauna demókrata til að herða skotvopnalöggjöf landsins.

100 frumvörp um breytingar á skotvopnalöggjöfinni hafa farið fyrir þingið á sl. fimm árum og hafa þau öll verið felld.

Demókrataþingmaðurinn John Lewis ræðir við fréttamenn fyrir utan þinghúsið í …
Demókrataþingmaðurinn John Lewis ræðir við fréttamenn fyrir utan þinghúsið í Washington. AFP

Obama sendir þakkir með Twitter

Þingmaðurinn John Lewis leiðir setuverkfallið, en hann tók þátt í mannréttindabaráttu á sjöunda áratug síðustu aldar. „Hvað hefur þingið gert [til að bregðast við ofbeldi],“ hefur BBC eftir Lewis sem vísaði þar til tilrauna sl. vikna til að breyta skotvopnalöggjöfinni.

„Ekkert. Við höfum snúið daufum eyrum við blóði sakleysingja. Við erum blind gagnvart ógöngum. Hvar er hugrekki okkar? Hversu margar mæður … og feður til viðbótar þurfa að fella sorgartár?“

Barack Obama Bandaríkjaforseti þakkaði Lewis fyrir framlag sitt í Twitter-skilaboðum „fyrir að vera í forsvari gegn byssuofbeldi þegar við þurfum þess mest.“

Repúblikanar segja aðgerðirnar eingöngu til að ná augum og eyrum fjölmiðla. „Mér er alveg sama þó þeir geri sig að fíflum í sjónvarpinu,“ sagði  Kevin Cramer þingmaður repúblikana.

CNN hefur eftir Ryan að hann muni ekki leggja skotvopnafrumvarp fyrir þingið. „Þeir vita að við munum ekki leggja fram frumvarp sem dregur úr stjórnarskrárvörðum réttindum einstaklings án frekari úrvinnslu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert