Þrír drepnir á lögfræðistofu í Madrid

Spænska lögreglan telur morðingjana hafa kveikt eldinn til að eyðileggja …
Spænska lögreglan telur morðingjana hafa kveikt eldinn til að eyðileggja sönnnargögn. AFP

Tveir konur og einn karl voru myrt á lögfræðistofu í Madrid að því er fréttavefur BBC hefur eftir spænsku neyðarlínunni.

Morðin uppgötvuðust undir kvöld í gær þegar vegfarandi tilkynnti um eldsvoða. Líkin höfðu verið limlest og m.a. hafði eitt fórnarlambanna verið skorið á háls. Spænska lögreglan telur morðingjana hafa kveikt eldinn til að eyðileggja sönnunargögn.

Yfirmaður lögfræðistofunnar er frá Perú og starfaði sem saksóknari í heimalandi sínu þar sem hann sótti m.a. mál sem snerust um mannrán og eiturlyfjasölu, samkvæmt upplýsingum spænskra fjölmiðla. Hann var ekki á skrifstofunni þegar árásin var gerð.

Spænskir fjölmiðlar segja tvö fórnarlambanna hafa verið starfsmenn lögfræðistofunnar og að þriðja fórnarlambið hafi verið viðskiptavinur sem kom þar við til að ganga frá skjölum.

Lögregla er sögð útiloka enga möguleika er kemur að tilefni morðanna.

Morðin áttu sér stað í Usera-hverfinu í Madrid í gærkvöldi. Það var kona sem var á gangi um stiga skrifstofubyggingarinnar um hálfsjöleytið að staðartíma sem fann reykjarlykt og hringdi á slökkviliðið. Þegar slökkviliðsmenn komu á staðinn fundu þeir líkin í tveimur herbergjum skrifstofunnar og logaði eldur á báðum stöðum.

Að sögn BBC sérhæfði lögfræðistofan sig í innflytjendalögum og aðstoðaði einnig fólk við að setjast aftur að á Spáni.

Fjöldi Suður-Ameríkumanna býr í Usera-hverfinu og þar má einnig finna Kínahverfi Madridborgar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert