Tæplega 100 manns farast í fellibyl í Kína

Íbúi Yancheng situr framan við hús sitt, sem eyðilagðist í …
Íbúi Yancheng situr framan við hús sitt, sem eyðilagðist í fellilbylnum í gær. AFP


Tæplega hundað manns fórust í fellibyl og hagléli í Jiangsu-héraði í austurhluta Kína og um 800 manns til viðbótar slösuðust í óveðrinu, að því er kínverskir ríkisfjölmiðlar hafa greint frá.

Úrhellisrigning fylgdi í kjölfar fellibyljarins sem kom að úthverfum borgarinnar Yangchen síðdegis í gær og náði vindurinn allt að 125 km hraða á klukkustund.

Búið er að leita í rústum húsa að fórnarlömbum fellibyljarins og sagði yfirmaður slökkviliðs héraðsins að hreinsunarstarf sé nú að hefjast.

Xi Jinping, forseti Kína, hefur fyrirskipað að allt kapp verði lagt á björgunaraðgerðir í héraðinu, en að sögn Xinhua-fréttastofunnar er fellibylurinn einn sá öflugasti til að fara yfir Kína í hálfa öld og eru þetta einar verstu hörmungar sem orðið hafa í Jiangsu frá upphafi.

Íbúar ganga um rústar húsa sinna í Yancheng. Vindurinn náði …
Íbúar ganga um rústar húsa sinna í Yancheng. Vindurinn náði allt að 125 km hraða. AFP

Fellibylurinn olli verulegu tjóni og þannig mátti að sögn fréttavefjar BBC, sjá kengbogin mastur og rifna kapla við veginn til þorpsins Xintu.

BBC hefur eftir konu á sjötugsaldri að hún hafi aldrei upplifað annað eins. Þök hafi rifnað af húsum, veggir hafi hrunið og bílar lent í árfarvegum.

Björgunarsveitir unnu í dag að því að flytja slasaða íbúa á brott og koma vatni og öðrum neyðarbirgðum til annarra.

Frekari spár um fleiri fellibylji, úrhellisrigningu og haglél hamla björgunaraðgerðum, en rúmlega 1.300 lögreglumenn hafa verið sendir á vettvang til að aðstoða við björgunaraðgerðirnar.

Fellibylurinn er sá öflugasti sem farið hefur yfir Kína í …
Fellibylurinn er sá öflugasti sem farið hefur yfir Kína í hálfa öld. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert